Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Fingraför“ veirunnar ekki til í alþjóðlegum gagnabanka

29.07.2020 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
„Það sem er athyglisvert er hversu miklu raðgreiningin bætir við. Við erum með fjóra hópa og einstaklinga þar sem smitrakningateymið hefur ekki fundið nein tengsl en raðgreiningin á veirunni hefur leitt í ljós að þeir eru með sama afbrigði,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Afbrigðið eða fingraför veirunnar eru ekki til í alþjóðlegum gagnabanka. Sem bendir til þess að hún komi frá landi sem er mjög lítið í að raðgreina.

Fastlega er búist við að aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins verði hertar til muna hér á landi vegna mikillar fjölgunar innanlandssmita.

Íslensk erfðagreining ætlar að kalla fólk inn í skimun á nýjan leik; bæði með slembiúrtaki en líka fólk sem var á knattspyrnumótinu Rey Cup eftir að þar kom upp smit. 

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir að þessi mikla fjölgun smita valdi honum kvíða og áhyggjum. Hann fari núna fyrr fram úr á morgnana. Það sé þó mikilvægt að finna í þessu gleði til að takast á við vandamálið. 

Hann segir mjög litlar upplýsingar um þetta afbrigði veirunnar, fingraför ef svo mætti kalla, sem virðist vera að valda þessu mikla innanlandssmiti. „Það hafa 74 þúsund veirur verið raðgreindar og gögn sett í alþjóðlegan gagnagrunn og það er engin eins og þessi sem þýðir að þetta smit kemur frá landi sem er mjög lítið að raðgreina.“ 

Ekki sé ólíklegt að þetta sé frá landi í Austur-Evrópu þar sem ekki hefur verið mikið um raðgreiningu.  Kári segir þetta ekki koma á óvart, kórónuveiran sem valdi COVID-19 stökkbreytist á mjög tilviljanakenndan hátt og þá myndist munstur sem verði einkennandi fyrir ákveðið landsvæði.

Kári segir það áhyggjuefni að þeir sem hafa greinst með þetta afbrigði kórónuveirunnar hafi enga hugmynd um hvernig þeir tengjast hver öðrum. „Þannig að það hljóta að vera aðilar inn á milli, fimmta smitið sem gæti verið ein manneskja eða einn hópur.“ 

Þá segir hann það valda áhyggjum að tveir af hinum sýktu sem búsettir eru á Akranesi hafi verið með mjög mikið af veirunni sem geri þá mjög smitandi.

Ákveðið var að slaka á kröfum um komur til landsins þann 15. júní og Kári segir að sú ákvörðun hafi verið skynsamleg. Þetta sé eitthvað sem búast megi við, að frelsið verði aukið um tíma, svo minnkað aftur og svo aukið á nýjan leik. „ Þetta kemur til með að gerast í nokkrum bylgjum. Það er ekki hægt að búast við örðu en að svona blossi upp og við þurfum þá að hlúa að fólki og vernda þá sem eru viðkvæmastir.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV