Faxaflóahafnir tapa milljarði vegna COVID-19

29.07.2020 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Faxaflóahafnir verða af fjórðungi árstekna sinna í ár vegna COVID-19 faraldursins. Þetta segir Gísli Gíslason hafnarstjóri. Komum farþegaskipa hefur fækkað og flutningar dregist saman.

Árstekjur Faxaflóahafna hafa undanfarin ár verði rúmir fjórir milljarðar. Gísli Gíslason hafnarstjóri, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að áætlað tap hafnanna vegna kórónuveirufaraldursins næmi einum milljarði króna. 

„Faxaflóahafnir eru að fá í tekjur um fjóra komma tvo, þrjá, milljarða á eðlilegu ári. Það er milljarður sem fer niður. Það eru um sjö hundruð milljónir í farþegarskipunum. Okkur sýnist núna að flutningarnir, það muni verða svona þrjú hundruð milljón króna fall,“ segir Gísli.

Gísli gerir ekki ráð fyrir að flutningar aukist eða farþegaskipum fjölgi í bráð.    

„Ég held að það verði nú ekki lakara það sem eftir lifir árs. En ég er ekki viss um að við sjáum batnandi tölur fyrr en eftir áramót, undir vor kannski á næsta ári. Við sjáum þetta nokkuð glöggt á flutningatölum, hvernig efnahagurinn stendur. Við sjáum að það var búið að vera tiltölulega gott jafnvægi frá miðju ári 2018 fram á lok árs 2019. Og þá varð býsna snarpur sjálfti skulum við segja. Og hann hefur bara haldið áfram.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi