Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Enginn Innipúki verði reglur hertar - Eyjamenn á tánum

Mynd með færslu
 Mynd: Aníta Eldjárn - Innipúkinn
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að bæjaryfirvöld fylgist vel með framvindu mála í dag og muni endurskoða ákvarðanir sínar verði reglur hertar. Hún á ekki von á miklum fjölda til Vestmannaeyja og minnir á að allir þurfi „að bera persónulega ábyrgð á sínum persónulegu sóttvörnum.“ Forsvarsmaður Innipúkans í Reykjavík segir að hátíðin verði blásin af ef tveggja metra reglan verður tekin upp að nýju og opnunartími skertur.

Engin þjóðhátíð verður í Eyjum í ár vegna kórónuveirufaraldursins.  

Fréttastofa greindi frá því í gær að nokkrir veitingastaðir í Eyjum hefðu fengið leyfi frá bæjaryfirvöldum til að selja áfengi utandyra og þá stendur til að vera með brennu við Fjósaklett og flugeldasýningu.

En skjótt skipast veður í lofti. Svo virðist sem kórónuveiran sé komin á flug á ný og yfirvöld ráða nú ráðum sínum og skoða hvort grípa þurfi til hertra aðgerða á ný.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að bæjaryfirvöld í Eyjum séu vel meðvituð um stöðuna, engir viðburðir verði á vegum bæjarins eða ÍBV um helgina og ef það verði einhverjar breytingar á þeim reglum sem gilda þá muni bæjaryfirvöld að sjálfsögðu endurskoða stöðuna. Eyjamenn hafi reynsluna af þessari veiru og viti hvað það þýði þegar upp komi hópsýking. Hún á ekki von á miklum fjölda til Eyja um helgina.

Í Reykjavík stendur til að halda Innipúkann eins hefð hefur verið fyrir um verslunarmannahelgina. Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, segir mjög skrýtið að skipuleggja tónlistarhátíð við þessa aðstæður og hlutirnir breytist mjög hratt.

Ef það verði fækkað í hópi þeirra sem megi koma saman,  tveggja metra reglan tekin upp að nýju og opnunartími skertur verði Innipúkinn blásin af. Hann segir þetta mjög óþægileg stöðu enda sé stutt í að hátíðin eigi að hefjast.  Þau hafi ekki óskað eftir neinum undanþágum frá borginni heldur farið eftir öllum þeim reglum sem hafi verið í gildi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV