Ekkert handaband við innsetningu forseta

Forseta Íslands verður ekki óskað til hamingju með handabandi við innsetningu hans á laugardag vegna sóttvarnaráðstafana. Þá hefur boðsgestum við embættistökuna verið fækkað úr tæplega 300 í 90.

Forseti Íslands er settur í embætti þann fyrsta ágúst á fjögurra ára fresti enda kjörtímabil forseta fjögur ár. Það á við hvort sem verið er að skipa nýjan forseta setja nýjan forseta inn í embætti eða þegar sá sem hefur gegnt embættinu vinnur drengskaparheit að stjórnarskránni á ný.

Embættistakan er í eðli sínu formföst, í fyrra voru boðsgestir um 270 en vegna COVID-19 þarf að gera heilmiklar breytingar og eru boðsgestir nú um 90. Meðal boðsgesta eru fyrrverandi forsetar, ráðherrar, hæstaréttardómarar, sendimenn erlendra ríkja, formenn flokka og þingflokka. Þeim sem er ekki boðið að þessu sinni eru meðal annars ráðuneytisstjórar, óbreyttir þingmenn og forstöðumenn opinberra stofnana.

Bryndís Hlöðversdóttir,ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti, segir að í ljósi ástandsins í samfélaginu þurfi að gæta að sóttvarnarráðstöfunum við athöfnina. „Þannig að hún verður minni en að öðru leyti með hefðbundnu sniði en boðsgestum er fækkað vegna sóttvarnarráðstafana svo við getum viðhaft kurteisisbilið góða.“

Innsetningin sjálf er í höndum handhafa forsetavalds en það eru forseti Hæstaréttar, forsætisráðherra og forseti Alþingis. Samkvæmt hefðinni tekur forseti við árnaðaróskum handhafa forsetavalds, þegar hann hefur unnið drengskaparheit að stjórnarskránni, með handabandi.

Bryndís segir handabandið ekki verða viðhaft að þessu sinni. „Það var eitt af því sem var ákveðið strax og er hluti a sóttvarnarráðstöfunum þannig að þegar við stóðum frammi fyrir því að þurfa að haga athöfninni í takti við þær var það eitt af því sem var ákveðið en það hefur ekki verið ákveðið hvað verði gert í staðinn.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi