Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Dauðsföll orðin 150 þúsund í Bandaríkjunum

29.07.2020 - 17:58
epa08572734 Nurse Practitioner Kelly Nagi (2L) of the Brockton Neighborhood Health Center, talks with staff while Denilse Goncalves (R) prepares Covid-19 tests for drive up patients at the Brockton High School in Brockton, Massachusetts, USA 29 July 2020. Massachusetts Governor Charlie Baker has launched several Covid-19 test sites in harder hit communities to control the spread of the disease.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjöldi látinna af völdum COVID-19 sjúkdómsins fór í dag yfir 150 þúsund í Bandaríkjunum. Hvergi í heiminum eru andlát fleiri af hans völdum.

Tæplega 1.600 létust í Bandaríkjunum síðastliðinn sólarhring, fleiri en nokkru sinni síðastliðinn tvo og hálfan mánuð, samkvæmt gögnum Johns Hopkins háskólans í Maryland. Þá greinir Reuters fréttastofan frá því í dag að COVID-19 hafi dregið yfir tíu þúsund til dauða í Bandaríkjunum síðastliðna ellefu daga.

Flest smit hafa greinst í þessum mánuði í Arizona, Kaliforníu, Flórída og Texas. Álag er gríðarlegt á heilbrigðiskerfið í ríkjunum af þessum sökum.

Í Flórída létust 217 COVID-19 sjúklingar síðastliðinn sólarhring og hafa aldrei verið fleiri. Þar var tilkynnt um hátt í 9.500veirusmit. Þau eru þar með komin yfir 450 þúsund frá því að farsóttin blossaði upp.

Einn þeirra sem sýktust vestra í dag er Louie Gohmert sem situr fyrir Repúblikanaflokkinn í Texas í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann hefur til þessa neitað að ganga með andlitsgrímu eða virða fjarlægðartakmarkanir. Gohmert hefur löngum verið í þingsal að undanförnu, að sögn CNN, tekið þátt í atkvæðagreiðslum og ráðfært sig við sérfræðinga. Hann átti að fara með Donald Trump til Texas í dag, en ekkert verður af því vegna smitsins.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV