Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Átta sóttu um embætti dómara við Hæstarétt

29.07.2020 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Átta sóttu um tvö embætti dómara við Hæstarétt Íslands. Embættin voru auglýst þann 10. júlí síðastliðinn og rann umsóknarfrestur út í fyrradag. Fjórir umsækjenda eru Landsréttardómarar, tveir þeirra eru lagaprófessorar, einn er héraðsdómari og einn er lögmaður. Hlutfall karlkyns og kvenkyns umsækjenda er hnífjafnt.

Umsækjendur um embættin eru: 

  • Aðalsteinn E. Jónasson, dómari við Landsrétt
  • Ása Ólafsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
  • Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness
  • Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
  • Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt
  • Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður
  • Oddný Mjöll Arnardóttir, dómari við Landsrétt
  • Þorgeir Ingi Njálsson, dómari við Landsrétt.

Á vef Stjórnarráðsins segir að skipað verði í embættin hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur lokið störfum.

 

Fimm dómarar Hæstaréttar hafa óskað eftir lausn frá embættinu frá því síðasta sumar. Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson óskuðu eftir lausn frá embætti dómara í ágúst í fyrra og hættu þeir störfum síðasta haust. Helgi I. Jónsson óskaði eftir lausn í janúar síðastliðnum og lét hann af störfum í vor. Þá óskuðu Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson lausnar frá embætti í sumar og munu þau hætta störfum í haust. 

Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon voru bæði skipuð dómarar við réttinn á þessu ári. Embættum dómara við Hæstarétt hefur fækkað á undanförnum árum og eru nú sjö. Mikið álag var á dómstólnum á árunum eftir hrun og voru embættin tíu þegar mest lét.