
Afskrifa allar óefnislegar eignir vegna álversins
Mbl.is greinir fyrst frá niðurfærslunni.
Rio Tinto lagði fyrr í mánuðinum fram formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna Landsvirkjunar sem það segir mismuna álfyrirtækjum og misnota markaðsráðandi stöðu sína.
Þá boðaði Rio Tinto í síðustu viku lokun álversins láti Landsvirkjun ekki af háttsemi sinni. Sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði við það tækifæri að lokun álversins myndi hafa mikil áhrif og væri þungt högg fyrir bæjarfélagið.
Höguðust um 3,3 milljarða dollara
Í árshlutareikningi Rio Tinto eru óefnislegar eignir, þ.e. bókfærðar eignir vegna framtíðartekna, færðar niður í núll. Í reikningnum kemur fram að félagið hafi hagnast um 3,3 milljarða dollara á árshlutanum, eða rúmlega 450 milljarða íslenskra króna sem er samdráttur um 20% miðað við sama árshluta í fyrra. Á þessum tíma í fyrra nam hagnaðurinn 4,1 milljarði dala.
Fjallað er um erfiða stöðu áliðnaðarins, en álframleiðsla fyrirtækisins var 2% minni en í fyrra. Meðal neikvæðra áhrifa þar eru nefndar viðgerðir við kerskála Kitimat álversins í Kanada, lokun kerskála í Tiwai álverinu á Nýja Sjálandi og sú ákvörðun að reka álverið í Straumsvík á 85% afköstum.
„Við höfum lokið fyrsta fasa af endurskoðun skipulags ÍSAL álvers okkar á Íslandi sem var kynnt 12. febrúar. Þrátt fyrir fjölmargar tilraunir til að koma á uppbyggilegum viðræðum við orkusala okkar Landsvirkjun þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun er ekki reiðubúin að bæta núverandi rafkaupaaðstæður ÍSALS og höfum brugðist við móðgandi og mismunandi framferði þeirra til að tryggja sjálfbærni álversins,“ segir í skýrslu Rio Tinto.
Bregðist Samkeppniseftirlitið ekki við eigi Rio Tinto ekki annarra kosta völ en að segja upp raforkusamningnum; og hefja undirbúning lokunar álversins.
Síðasta sumar segir Rio Tinto vinnu hafa hafist við endurmat á virði eigna Rio Tinto á Íslandi. Ástandið á álversmörkuðum sem m.a. má rekja til kórónuveirufaraldursins og ákvarðanirnar sem kynntar voru í febrúar geri það hins vegar að verkum að rýrnunin sé slík að að hún styðji ekki áframhaldandi rekstur. Þess vegna sé virði óefnislegra eigna fært niður í núll.