Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ætla að tvöfalda fjölda kvenna í tækniteymum

29.07.2020 - 23:32
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Snap Inc., móðurfélag smáforritsins Snapchat, ætlar að tvöfalda fjölda kvenkyns starfsmanna í tækniteymum sínum á næstu fimm árum. Sömuleiðis hyggst fyrirtækið tvöfalda fjölda starfsmanna í tækniteymum sem tilheyra minnihlutahópum. Í dag gaf fyrirtækið út skýrslu yfir fjölbreytileika starfsfólks í fyrsta skipti.

16,1 prósent starfsmanna í tækniteymum félagsins eru konur en þriðjungur starfsmanna fyrirtækisins í heild er kvenkyns. Fjögur prósent starfsmanna fyrirtækisins eru svartir og tæp sjö prósent eru af suður-amerískum uppruna.

„Við erum staðráðin í því að gera allt sem þarf til þess að lagfæra þessar tölur. Því á bak við tölurnar er alvöru fólk,“ segja forsvarsmenn Snap Inc. í skýrslunni. 

 

Talsvert hallar á konur í tæknigeiranum í Bandaríkjunum og víðar. Samkvæmt gögnum sem Framkvæmdastjórn ESB tók saman um þátttöku kvenna aðildarríkja í stafræna hagkerfinu eru aðeins 17 prósent af sérfræðingum í upplýsinga- og fjarskiptatækni konur. Þar kemur einnig fram að konur í tæknigeiranum þéna að jafnaði 19 prósentum minna en karlar í sama geira. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV