Aðgengilegri tónlist en fólk heldur

Mynd: Kammersveitin Elja / Kammersveitin Elja

Aðgengilegri tónlist en fólk heldur

29.07.2020 - 15:48
Kammersveitin Elja, sem skipuð er ungu fólki á milli tvítugs og þrítugs, er um þessar mundir á flakki og stefna á að spila hringinn í kringum landið næstu vikuna. Sveitin spilar nýlega klassíska tónlist sem einn stofnandi sveitarinnar, Bjarni Frímann Bjarnason, segir aðgengilegri en fólk haldi.

Sveitin hefur spilað saman í þrjú ár en þetta er í fyrsta skipti sem hún fer á tónleikaferð um landið. Í dag eru meðlimir sveitarinnar staddir á Hólum í Hjaltadal í æfingabúðum áður en spilamennskan hefst formlega en fyrstu tónleikarnir verða haldnir í Skagafirði. Sveitin mun svo koma við á Ólafsfirði, Vopnafirði, Kirkjubæjarklaustri og í Reykjavík.

Elja er hljómsveit skipuð 20-30 einstaklingum, yngra fólki sem er ýmist í framhaldsnámi í hljóðfæraleik erlendis eða sem er nýsnúið aftur heim. Þau spila aðallega klassíska tónlist í nýrri kantinum, þó eldri verk slæðist auðvitað með, segir Bjarni Frímann, sem er einn stofnenda og stjórnandi sveitarinnar.

Sveitin varð að hans sögn til vegna áhuga sem var til staðar hjá hópnum fyrir því spila nýja tónlist og skapa vettvang til þess að spila og koma saman. Þau höfðu mörg fylgst að í tónlistarnáminu á Íslandi áður en þau fóru í nám til útlanda og svo var áhugi til staðar fyrir því að halda hópinn og koma saman þegar þau væru saman í fríum á Íslandi. „Stemmingin hefur aldrei verið betri í hópnum, við erum bara eins og fjölskylda,“ bætir hann við.  

Viðtal við Bjarna Frímann má hlusta á í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Spila saman yfir sumarið og um jólin