Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Á þriðja tug vitna yfirheyrð vegna brunans

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Á þriðja tug vitna hafa verið yfirheyrð vegna bruna sem varð í húsinu við Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní síðastliðinn þar sem þrír létust. Meðal þeirra er fólk sem var inni í húsinu þegar eldurinn kom upp og íbúar hússins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og vísar blaðið í upplýsingar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Karlmaður á sjötugsaldri var þann 9. júlí úrskurðaður í gæsluvarðhald til 6. ágúst vegna gruns um að hafa kveikt í húsinu, en hann hafði áður verið í varðhaldi frá 26. júní. Eldsvoðinn er rannsakaður sem manndráp af ásetningi. Þrír af þeim fjórum sem lögðust inn á spítala í kjölfar brunans eru útskrifaðir en sá fjórði liggur enn þungt haldinn.

Í frétt Fréttablaðsins segir að yfirheyrslur yfir manninum séu hafnar, en ekki hafi verið hægt að ræða við hann í að minnsta kosti þrjár vikur eftir brunann vegna andlegs ástands hans. 

Í Fréttablaðinu segir að vettvangsrannsókn sé nú lokið. Niðurstöðu rannsókna á sýnum sé beðið áður en ákæra verði gefin út.