Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

70% vilja skoða sameiningu á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Sjö af hverjum tíu íbúum á höfuðborgarsvæðinu telja að sameina megi sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og flestir þeirra vilja að þau sameinist í eitt sveitarfélag. Mesta fylgið við sameininguna er í Reykjavík og minnst í Mosfellsbæ. Þetta kemur fram í könnun sem Fréttablaðið lét gera meðal íbúa á svæðinu og birt er í blaðinu í dag.

Þar kemur fram að 81% Reykvíkinga sé þeirrar skoðunar að sameina megi einhver sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, rúm 73% Kópavogsbúa er sama sinnis, tæp 58% Hafnfirðinga og rétt rúmur helmingur Garðbæinga. Rúm 35% Seltirninga vilja sameiningu og um 32% íbúa Mosfellbæjar. 

Rúm 80% íbúa á landsbyggðinni telja að sameina megi sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. 

Af íbúum á höfuðborgarsvæðinu svöruðu flestir því að sameina mætti öll sveitarfélögin á svæðinu og næstflestir vildu sameina Reykjavík og Seltjarnarnes. 15% nefndu sameiningu Hafnarfjarðar og Garðabæjar, um 10% sameiningu Kópavogs og Garðabæjar og rúm 8% vildu sameina Reyjavík og Kópavog.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir í viðtali við Fréttablaðið að hún hafi ekki fundið fyrir áhuga eða þrýstingi frá íbúum um sameiningu. Niðurstöðurnar bendi ekki til þess að málið sé mjög brýnt í hugum fólks, en íbúar á svæðinu virðist vera opnir fyrir því að þetta verði skoðað.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir