Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trump kemur hydroxychloroquine til varnar á ný

28.07.2020 - 23:54
President Donald Trump speaks during a roundtable discussion about "Transition to Greatness: Restoring, Rebuilding, and Renewing," at Gateway Church Dallas, Thursday, June 11, 2020, in Dallas.(AP Photo/Alex Brandon)
 Mynd: AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fullyrti á fréttamannafundi í kvöld að malaríulyfið hydroxychloroquine væri nytsamlegt sem vörn gegn COVID-19 þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafi varað við því. Trump sagði einu ástæðuna fyrir því að lyfið væri talað niður væri að hann hefði mælt með því.

Ummæli Trumps koma síður en svo á óvart.

Sonur forsetans var bannaður frá samfélagsmiðlinum Twitter í heilan sólarhring eftir að hann birti myndskeið frá fréttaveitunni Breitbart þar sem læknirinn Stella Immanuel fullyrðir að lyfið sé bæði lækning við COVID-19 og fyrirbyggjandi við að veikjast. 

Facebook, Twitter og You Tube hafa fjarlægt myndskeiðið þar sem það er talið brot á reglum um upplýsingaóreiðu vegna kórónuveirufaraldursins. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað við notkun á lyfinu og segir engar sannanir fyrir því að það lækni COVID-19 eða sé forvörn fyrir því að sýkjast. Trump hefur engu að síður talað opinberlega um það að hann hafi tekið það í forvarnarskyni og „ekki fundið fyrir neinum aukaverkunum.“ 

Þegar forsetinn var spurður út í myndskeiðið sagði hann að þetta væri hópur virtra lækna. Fjölmiðlar vestanhafs fóru að grennslast frekar um læknanna og sérstaklega Immanuel sem er fædd í Kamerún en er læknir í Houston.  

Daily Beast greinir meðal annars frá því þeirri skoðun hennar að erfðaefni úr geimverum séu notuð í læknisfræðilegum tilgangi og að vísindamenn séu að þróa bóluefni til að koma í veg fyrir að fólk verði trúað. 

Þá hefur hún haldið því fram að legvandamál kvenna megi rekja til þess að þær stundi kynlíf með djöflum eða illum öndum í draumum sínum. Það sé því djöflasæði sem valdi veikindum þeirra.

Washington Post segir að þegar forsetinn hafi verið spurður út í trúverðugleika Immanuel og af hverju fólk ætti að taka orð hennar trúanleg hafi hann svarað: „Hún sagðist hafa náð miklum árangri með hydroxychloroquine.  Mér fannst þetta mikilvæg rödd en ég veit ekkert um hana.“

New York Times segir að ekki sé vitað hver reynsla þeirra lækna á myndskeiðinu sé af sjúklingum sem hafa fengið  COVID-19 .  Washington Post bendir á einn þeirra sem sjáist sé maður að nafni James Todaro sem hafi ítrekað talað um ágæti lyfsins. Annar sé Simone Gold sem hefur fullyrt að aðgerðir stjórnvalda eigi eftir að leiða til fleiri dauðsfalla en faraldurinn sjálfur.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV