Alls 26 þátttakendur á Rey Cup-fótboltamótinu leituðu á bráðamóttöku Landspítalans vegna meiðsla, 15 þeirra með brotin bein. Þórir segir áhyggjuefni að fleiri hafi slasast en venjulega.
Aðspurður hvort meiðslin kunni að gefa vísbendingar um að bæta þurfi fótboltavellina segir hann að meiðslin megi ekki rekja til leikja á neinum einum fótboltavelli frekar en öðrum. Þá segir hann engin merki séu um meiri hörku í leikjunum en áður.
„Þetta virðist koma úr öllum áttum og margs konar meiðsli. Úlnliðsbrot, handabrot, puttabrot, og engin ein skýring,“ segir Þórir.
Æfingastöðvun kann að hafa spilað inn í
Þórir segist velta því fyrir sér hvort keppendur hafi verið verr undirbúnir en venjulega vegna æfingastöðvunar í vor sökum COVID-19 faraldursins. „Þau voru náttúrulega frá æfingum í tæpa tvo mánuði eins og aðrir íþróttamenn. Og ég veit ekki hvort það geti verið skýring, að þau komi hreinlega verr undirbúin til leiks í þau átök sem fylgja fótboltanum.“