
Sögð vilja senda Ólaf Helga til Vestmannaeyja
Gustað hefur um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum að undanförnu. Starfsfólk embættisins hefur lýst langvarandi óstjórn og flokkadráttum. Þá hefur ríkt óánægja með óeðlilegar ráðningar og kynferðisleg áreitni verið látin ótalin.
Fréttastofa greindi frá því í síðustu viku að ráðherra hefði óskað eftir því við Ólaf að hann segði starfi sínu lausu. Ólafur varð ekki við tillögunni.
Fréttablaðið segir að ráðherra hafi veitt Ólafi Helga skamman frest til að ákveða hvort hann fallist á þá tillögu að flytjast til Vestmannaeyja. Þar er starf lögreglustjórans laust eftir Páley Bergþórsdóttir var skipuð lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
Blaðið segir að tilkynningin hafi borist til hans með formlegu bréfi. Ólafur Helgi vildi ekki tjá sig um fréttina við fréttastofu þegar eftir því var leitað. Og ekki náðist í Áslaugu Örn Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra.