
Skora á Trump að víkja Gunter úr embætti
Undirskriftasöfnunin hófst í gær í kjölfar yfirlýsinga Gunters um að öryggi hans væri ógnað á Íslandi. Í tilkynningu með undirskriftasöfnuninni segir að undir stjórn Gunters hafi sendiráðið vanrækt hlutverk sitt, bæði á sviði borgaraþjónustu og í samskiptum milli ríkjanna. Þar segir einnig að sendiherrann hafi móðgað íslensku þjóðina með órökstuddum yfirlýsingum um að hann óttaðist um öruggi sitt hér á landi, enda sé Ísland á meðal friðsælustu landa í heimi með einna lægstri glæpatíðni.
Undirskriftasöfnunin fer fram á We The People undirskriftasíðunni sem er undirvefsíða á vef Hvíta hússins. Ef 100.000 undirskriftir safnast á þrjátíu dögum verður áskoruninni komið til stjórnvalda.
Telur lífi sínu ógnað
Sendiherrann vill vopnaðan lífvörð og hefur auglýst eftir lífvörðum í íslenskum dagblöðum. Þá hefur komið fram að samkvæmt heimildamönnum Kveiks segist sendiherrann sannfærður um að hann sé í mikilli hættu vegna þess að hann er gyðingur.
Gunter dvaldi í Bandaríkjunum í vor og samkvæmt fréttastofu CBS veigraði hann sér við að snúa aftur til Íslands. Í umfjöllun CBS kemur fram að um miðjan maí hafi Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hringt í Gunter og sent hann aftur til Íslands. Þá hefur CBS eftir heimildamönnum sínum að Gunter sé haldinn ofsóknaræði.