Skiptir verulegu máli að landið sé ekki galopið

28.07.2020 - 11:59
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Íslendingar þurfa að herða sig í sóttvörnum segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún segir ríkisstjórnina hafa þungar áhyggjur af þeim smitum sem greinst hafa innanlands síðustu daga.

Í dag var ákveðið að fresta rýmkun samkomutakmarkana um tvær vikur. Nýjar reglur taka þess vegna gildi 18. ágúst en ekki þann 4. eins og til stóð. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis þess efnis.

„Í fyrsta lagi er það alveg á hreinu að við þurfum að herða okkur í sóttvarnaráðstöfunum hér innanlands,“ segir Katrín. „Við höfum þungar áhyggjur af þeim smitum sem eru að greinast hér innanlands. Svo mér finnst eðlileg ráðstöfun að fresta frekari afléttingu samkomutakmarkanna.“

Framkvæmd landamæraskimunarinnar er á borði forsætisráðherra. Katrín segir stöðugt sé verið að meta stöðuna. „Ég tel að skimunin hafi sannað gildi sitt. Það skiptir verulegu máli að við séum ekki með landið galopið og þar höfum við verið að læra af reynslunni. Til dæmis með tilkomu heimkomusmitgátarinnar. Það er mjög mikilvægt tel ég vera að við höldum henni áfram.“

Sóttvarnayfirvöld fara mánaðarlega yfir hvort draga þurfi úr skimunum við landamærin. Sá háttur var ákveðinn í upphafi. Katrín útilokar ekki að herða þurfi skilyrðin á landamærunum, þó ekki hafi verið tekin ákvörðun um það nú. „Í raun og veru getur vel verið að það þurfi að grípa til einhverra hertra ráðstafanna á næstunni ef við náum ekki vel utan um þau smit sem nú eru að greinast,“ segir Katrín.

Spurð hvort það komi til greina að fækka öruggum löndum segir Katrín: „Við erum með ákveðin viðmið í þeim efnum og ef staðan breytist í öruggu löndunum þá kemur það til greina, já.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi