Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir sendiherrann vilja flytja inn ótta

28.07.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Nichole Leigh Mosty fyrrverandi alþingismaður segir starfsemi bandaríska sendiráðsins á Ísland hálflamaða og nánast ómögulegt sé að ná sambandi við það. Hún gagnrýnir sendiherrann harkalega, sem í stað þess að kynnast friði og öryggi á Íslandi, vilji flytja inn þann ótta sem víða ríkir í Bandaríkjunum.

Jeffrey Ross Gunter sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi telur öryggi sínu ógnað hér á landi og vill að það verði tryggt betur, meðal annars með vopnaburði. Undirskriftasöfnun til að losna við hann er hafin vegna framkomu hans og vegna þess að þjónusta sendiráðsins hafi versnað til muna.

Nichole Leigh Mosty fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar segir að Bandaríkjamenn búsettir hér á landi kvarti undan því að fá ekki þjónustu hjá sendiráðinu, meðal annars í tengslum við útgáfu vottorða og fleira.

„Fólk bara kemst ekkert að. Það er ekkert hægt að nálgast. Það hefur lengi verið þekkt fyrir að vera erfitt, það þarf að panta tíma í gegnum tölvukerfið, en það er ekki hægt að panta tíma.“

Sjálf hefur hún reynt að ná sambandi til að breyta nafni sínu, en hún gifti sig hér á Íslandi og tók upp ættarnafn manns síns. Fæðingarnafn hennar er hins vegar skráð í Bandaríkjunum og hún lenti því í vandræðum með að kjósa í forkosningum fyrir forsetakosningar ytra, þegar hún var í Bandaríkjunum síðast.

„En ég hugsaði allt í lagi, þegar ég fer heim til Íslands klára ég þetta loks allt hjá sendiráðinu, en ég vakta þetta og það er bara ekki hægt fyrir mig að panta tíma eða fá upplýsingar um hvernig ég kemst að til að breyta nafninu og hafa þetta rétt.“

Undirskriftasöfnunin fer fram á síðu á vegum Hvíta hússins, en þar getur fólk hafið söfnun fyrir hvaða máli sem er og ef 100.000 undirskriftir nást, verður Hvíta húsið að bregðast við. Þess er krafist að forsetinn afturkalli skipun Gunters sem hafi hagað sér á óábyrgan hátt.

Nichole segir kröfur sendiherrans um vopn og gæslu út í hött og sýni að hann hafi ekkert gert til að kynnast landi og þjóð.

„Það á alltaf að mæta landinu af virðingu fyrir hefð og lögum og hér er fólk ekki að ganga með vopn og þar ekki að vera óttaslegið og sýnir hvað hann er vanhæfur í sínu starfi.“

Hún minnir á að í Bandaríkjunu ríki mikill ótti um hvaðeina og nú vilji sendiherrann flytja slíkan ótta inn.

„Mér finnst þetta ekki rétt og og vil ekki fá þetta í mínu nafni. Mér finnst þetta ekki gefa góða mynd af Bandaríkjamönnum og mér finnst þetta mjög slæm framkoma við Íslendinga.“