Réttarhöldum í máli Johnny Depp gegn The Sun lokið

epa08571160 US actor Johnny Depp leaves the Royal Courts of Justice in London, Britain, 28 July 2020. US actor Johnny Depp is suing The Sun's newspaper publisher News Group Newspapers (NGN) over claims he abused his ex-wife, US actress Amber Heard, reports state.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Réttarhöldum í máli Johnny Depp gegn The Sun lokið

28.07.2020 - 22:11

Höfundar

Réttarhöldum í málsókn leikarans Johnny Depp gegn breska götublaðinu The Sun lauk í dag. Depp vill skaðabætur vegna fullyrðinga blaðsins um að hann hafi beitt fyrrverandi konu sína ofbeldi. Lögmaður segir leikarann taka mikla áhættu með lögsókninni.

Málsóknin snýst um grein sem The Sun skrifaði í apríl 2018. Þar var Depp, sem er líklega frægastur fyrir leik sinn í Pirates of the Carribbean, sagður hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína, Amber Heard, líkamlegu ofbeldi minnst 14 sinnum. Heard sjálf hefur haldið þessu fram. Í réttarhöldunum, sem lauk í dag, var því mótmælt að Depp hefði beitt Heard ofbeldi - hann bæri virðingu fyrir konum. Ýmis skilaboð frá honum sem lögð voru fram benda þó til annars.

Lögmaður Depps sakaði meðal annars Heard ítrekað um að búa þessar ásakanir til. Heard gaf opinbera yfirlýsingu að loknum réttarhöldunum þar sem hún sagðist ekki hafa beðið um þessa málsókn. „Það hefur verið ótrúlega sársaukafullt að upplifa aftur sambandsslit mín, að efast hafi verið um tilgang minn og sannleika auk þess sem erfiðustu og ítarlegustu smáatriði líf míns með Johnny hafi verið rædd fyrir rétti og útvarpað um allan heim.“

Mark Stephens sérfræðingur í fjölmiðlalögum segir 90% þeirra sem fara í svona mál vinna það - en Depp taki þó mikla áhættu með málaferlunum. „Drullan situr alltaf eftir að hluta. Þannig að ef hann nær ekki að hreinsa sig af öllum fjórtán ásökununum sem um ræðir mun hann tapa. Og það er væntanlega mesta áhætta sem hann hefur nokkurn tímann tekið.“

Dómur verður kveðinn upp eftir nokkrar vikur. Depp hefur líka höfðað mál vegna greinar sem Heard skrifaði í Washington Post um heimilisofbeldið sem hún varð fyrir.