„Það á ekki að líðast að listamanni séu gerðar upp skoðanir eða hann bendlaður við stjórnmálamann sem hann styður ekki,“ segir í bréfinu. Þeir, eins og aðrir, hafi rétt á því að fylgja sinni eigin sannfæringu og verja þurfi tjáningarfrelsi þeirra.
Hefð er fyrir því í Bandaríkjunum að forsetaefni velji sér lög fyrir kosningabaráttu sína. Þannig studdist Bill Clinton við lagið Don't Stop með Fleetwood Mac og George W. Bush við I Won't Back Down eftir Tom Petty.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fengið nokkra tónlistarmenn upp á móti sér með því að spila lög á kosningafundum án leyfis listamannanna. Þannig hótaði the Rolling Stones málsókn ef forsetinn hætti ekki að spila lag þeirra „You Can't Always Get What You Want“.
Fjölskylda Tom Petty fór jafnframt fram á lögbann á notkun lagsins I Won't Back Down sem forsetinn notaði á kosningafundi sínum í Tulsa í júní. Og Queen gerði einnig athugasemdir við að Trump hefði notað lagið „We Are The Champions“ í aðdraganda forsetakosninganna 2016. Petty var heldur ekki ánægður þegar Bush notaði lagið í kosningaherferð sinni.
Listamenn eins og Pharrell Williams, Rihanna, Aeorosmith, Neil Young og dánarbú Prince hafa einnig gagnrýnt forsetann fyrir nota lög þeirra án þess að biðja um leyfi. Meðal annarra sem skrifuðu undir bréfið voru Lionel Ritchie, Elvis Costello og hljómsveitirnar Blondie, Green Day og Pearl Jam.