Ótrúleg endurkoma Eyjakvenna gegn bikarmeisturunum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ótrúleg endurkoma Eyjakvenna gegn bikarmeisturunum

28.07.2020 - 19:55
ÍBV vann 3-2 sigur á bikarmeisturum Selfoss í Suðurlandsslag í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld. Þór/KA hafði þá betur gegn KR norðan heiða.

Eyjakonur sátu í fallsæti fyrir heimsókn Selfyssinga til Vestmannaeyja í kvöld en liðið var með sex stig í níunda sæti með verri markatölu en Stjarnan og Þróttur R. sem voru með sama stigafjölda í sætunum fyrir ofan. Selfoss var í fjórða sæti með tíu stig, tveimur á eftir Fylki sem var í því þriðja.

Selfoss átti draumabyrjun þegar Tiffany McCarty skallaði fyrirgjöf Clöru Sigurðardóttir í netið eftir aðeins þriggja mínútna leik. Gestirnir voru sterkari aðilinn og tvöfölduðu verðskuldað forystuna á 23. mínútu þegar Dagný Brynjarsdóttir skoraði af vítapunktinum eftir að Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz hafði handleikið knöttinn innan teigs ÍBV.

2-0 stóð í leikhléi en lettneska landsliðskonan Olga Sevcova minnkaði muninn fyrir heimakonur þegar skot hennar úr aukaspyrnu fór af varnarveggnum og í netið. Liðunum gekk illa á skapa sér færi í síðari hálfleiknum en Selfoss var ívið sterkari aðilinn. Eyjakonan Kristjana bætti hins vegar fyrir vítið fyrr í leiknum þegar hún jafnaði fimm mínútum fyrir leikslok eftir hörkusprett upp vinstri kantinn. Eyjakonur fullkomnuðu svo endurkomuna í uppbótartíma þegar Miyah Watford slapp inn fyrir vörn Selfyssinga og afgreiddi boltann snyrtilega í markið.

ÍBV vann 3-2 sigur eftir að hafa verið 2-0 undir í leikhléi. Liðið fer upp úr fallsæti í það sjötta í deildinni með níu stig, aðeins stigi frá Selfossi.

Sterkur sigur Norðankvenna

Á Akureyri tók Þór/KA á móti KR en liðin voru jöfn að stigum, með sjöt stig, í 5.-6. sæti. Eftir markalausan fyrri hálfleik fór sá síðari fjörlega af stað. Lára Kristín Pedersen, sem lék með norðankonum síðasta sumar, kom KR í forystu með þrumuskoti af um 20 metra færi sem söng í netinu á 53. mínútu. Aðeins þremur mínútum síðar fengu heimakonur aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi KR sem Jakobína Hjörvarsdóttir gaf fyrir markið. Þar gleymdu KR-konur algjörlega að dekka Margréti Árnadóttur sem lagði boltann í markið af markteig með sinni fyrstu snertingu í leiknum eftir að hafa komið inn á sem varamaður skömmu áður.

Ingunn Haraldsdóttir, fyrirliði KR, handlék þá knöttinn innan teigs á 77. mínútu og vítaspyrna dæmd fyrir Þór/KA. Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði af öryggi úr spyrnunni og tryggði norðankonum þannig 2-1 sigur.

Þór/KA fer þá að hlið Selfoss með tíu stig í fimmta sætinu en Selfoss er með betri markatölu. KR er í sjöunda sæti með sjö stig.