Nær þrír milljarðar dýra drápust í gróðureldum Ástralíu

epa08042711 Firefighters work to contain a fire as it encroaches on properties near Termeil, New South Wales, Australia, 03 December 2019 (issued 04 December 2019). According to media reports, more than 100 fires were burning across the state of New South Wales on 03 December, with more than 50 of them still uncontained.  EPA-EFE/DEAN LEWINS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Nærri þrír milljarðar dýra ýmist drápust eða hröktust frá heimkynnum sínum í gróðureldunum miklu sem herjuðu á Ástralíu í vetur sem leið. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var af vísindamönnum við nokkra ástralska háskóla. Í skýrslu þeirra segir að um 143 milljónir spendýra, 180 milljónir fugla, 51 milljón froska og 2,46 milljarðar skriðdýra hafi drepist eða hrakist frá sínum náttúrulegu heimkynnum í eldunum.

Ekki vitað hve mörg dýranna drápust en lífslíkur þykja litlar

Þótt ekki sé kveðið upp úr um það, nákvæmlega hversu mörg dýr drápust í eldunum eða vegna þeirra, þá þykir ljóst að lífslíkur þeirra sem komust undan logunum voru „líklega ekki mjög góðar" sökum skorts á fæðu, skjóli og vörnum gegn rándýrum, að sögn Chris Dickmans, eins af höfundum skýrslunnar.

Eldarnir sviðu yfir 115.000 ferkílómetra gróðurlendis vítt og breitt um Ástralíu í árslok 2019 og byrjun 2020. 30 manns fórust í eldunum og þúsundir heimila brunnu til grunna. Aldrei fyrr hafa gróðureldar logað jafn lengi á jafn stóru svæði í Ástralíu og rekja visindamennirnir það til áhrifa loftslagsbreytinga og hlýnunar Jarðar.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi