Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kári óttast að veiran sé komin aftur á flug

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur áhyggjur af því að kórónuveiran sé aftur komin á flug á Íslandi. Vísbendingar séu um að fleiri hafi sýkst á fótboltamótinu Rey Cup í Laugardal síðustu helgi.

Í dag var tilkynnt að Íslensk erfðageining ætlaði að hefja á ný skimun fyrir kórónuveirunni. „Við erum komin aftur á þann stað og okkur finnst eins og allir eigi að leggja sitt af mörkum og meðal annars við,“ segir Kári. 

Kára þykir þróun síðustu daga ógnvekjandi. „Undanfarna daga hafa sprottið upp smit með þannig munstri að það hefur vakið dálítinn ugg hjá okkur og öðrum. Það eru til dæmis þrír aðilar úti í samfélaginu sem eru sýktir af veiru með samskonar stökkbreytingar sem bendi til þess að þær komi frá sömu uppsprettu. Og þetta eru aðilar sem vita ekki til þess að þeir hafi tengst á neinn hátt og það leiðir mann að þeirri niðurstöðu að það hljóti að vera einstaklingar milli þessara aðila þaning að það séu fleiri úti í samfélaginu sýktir af þessari veiru úr sama stofni,“ segir Kári. 

Voru með mikið magn af veirunni

Í ofanálag hafi sum þeirra sem greindust verið með mikið magn af veirunni í líkamanum og hafi þess vegna verið mjög smitandi. „Þannig að við höfum af þessu áhyggjur. Nú eru að berast fréttir af því að sá möguleiki sé fyrir hendi að fleiri af þeim sem voru á fótboltamótinu í Laugardal séu orðnir sýktir. Og þegar þú leggur þetta allt saman saman þá bendir það til þess að veiran sé komin á dálítið flug aftur.“ Nú þurfi að meta hversu miklu flugi hún hafi náð. „Og við verðum í fyrsta lagi að meta hversu mikið flug það er og til þess að gera það ætlum við að fara að skima úti í samfélaginu almennt og þess utan skima mjög mikið í kringum þá einstaklinga sem hafa reynst vera sýktir á undanförnum dögum,“ segir Kári.

Hann segir að Íslensk erfðageining sé komin aftur að borðinu fyrst og fremst sökum þess að þau hafi áhyggjur af stöðu mála. „Þannig að við buðumst til þess að fara af stað og byrja að skima aftur og erum búin að eiga fund með landlækni, sóttvarnarlækni, hafa samband við kollega okkar uppi á Landspítala og við ætlum að byrja á þessu eins hratt eins og við getum.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV