Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kappræður Trumps og Bidens fluttar frá Indiana til Ohio

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Fyrstu sjónvarpskappræður þeirra Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta og forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, og Joes Bidens, frambjóðanda Demókrata, fara fram í Cleveland í Ohio 29. september næstkomandi. Til stóð að þær færu fram í Notre Dame-háskólanum í Indianaríki, en af því verður ekki vegna kórónaveirufaraldursins og varúðarráðstafana sem honum tengjast.

Formlegir gestgjafar kappræðnanna verða Case Western Reserve-háskólinn og Cleveland-klíníkin. Kappræðurnar eru þær fyrstu af þrennum sem þeir Trump og Biden munu heyja fram að kosningunum 3. nóvember. Næstu kappræður, sem áttu að fara fram í Michigan-háskóla, hafa líka verið færðar og verða haldnar í Miami hinn 15. október. Þriðju og síðustu kappræðurnar verða í Nashville í Tennessee 22. okóber.