Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kæra vegaframkvæmdir í Vesturdal

28.07.2020 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd: Sigþrúður Stella Jóhannsdót
Náttúruverndarsamtök á Norðurlandi hafa kært vegaframkvæmdir í Vesturdal til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þau segja veginn ekki í samræmi við umhverfið og vilja endurhanna hann frá grunni.

 

Á föstudaginn lögðu Samtök um Náttúruvernd á Norðurlandi fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og stöðvunarkröfu vegna vegaframkvæmda í Vesturdal í Jökulsárgljúfrum.

Samtökin telja að framkvæmdin sé ekki í samræmi við verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs um lágstemmdar vegabætur í Vesturdal. Verið er að leggja nýjan Dettifossveg en einnig afleggjara frá honum niður í Vesturdal að bílastæðum við Hljóðakletta.  Vegagerðin og Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi funduðu um málið fyrir helgi og í morgun. Harpa Barkardóttir formaður samtakanna segir að  miklir annmarkar séu á undirbúnings- og framkvæmdaferlinu öllu. 

„ Í raun og veru vatt þetta upp á sig. Málið var í raun og veru mun stærra en okkur grunaði. Við skulum athuga það að við erum að tala um svæði sem er mjög dýrmætt og skilgreint sem slíkt innan Vatnajökulsþjóðgarðs í verndaráætlun og Vatnajökulsþjóðgarður er á heimsminjaskrá UNESCO svo maður hefði haldið að það þyrfti að halda betur utan um öll svona atriði.“ segir Harpa.

Harpa segir að krafa félagsins sé að vegarlagningin í heild verði tekin til endurskoðunar með öllum sem eiga hlut að máli. Fram til þessa hafi náttúruverndarsamtökum ekki gefist kostur á að veita álit á framkvæmdinni þar sem vegkaflinn frá Dettifossvegi að Vesturdal falli ekki undir fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum.

„Nei í raun og veru ekki., Umhverfismatið er orðið fjórtán ára gamalt og þetta er framkvæmd sem hefur teygst mikið úr tímalega séð og umhverfismatið sem er framkvæmt árið 2006 fyrir Dettifossveg vestan megin Jökulsár á fjöllum það nær í raun og veru ekki til þessa vegar nei.“ segir Harpa.

Hún segir að nú þegar hafi Vegagerðin ákveðið að lækka veginn til að koma til móts við athugasemdir og milda tjónið.