Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Íslensk erfðagreining skimar fyrir veirunni á ný

28.07.2020 - 15:08
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Íslensk erfðagreining mun skima fyrir kórónuveirunni á nýjan leik fyrir íslensk stjórnvöld. Ráðgert er að hefja skimun fyrir veirunni með skipulögðum hætti og af handahófi á ný.

„Það er verið að undirbúa að skima eftir veirunni, einkum út frá þessum smitum, en einnig hugsanlega af handahófi. Það verður gert af Íslenskri erfðagreiningu sem er okkar haukur í horni og við erum ákaflega þakklát fyrir það. Framkvæmd á þessu verður kynnt þegar búið er að teikna þetta upp.“

Sóttvarnayfirvöld og almannavarnir ráða ráðum sínum síðar í dag og leggja grunninn að þessari skimun. Og þau hafa kallað til aukinn liðstyrk. „Það er Íslensk erfðagreining sem gerir hana. Þau eru auðvitað að safna saman sínu fólki. Þannig að á allra næstu dögum og vonandi á morgun [hefst skimunin]. En það skýrist seinna í dag,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Alma benti á að veiran er að koma upp í löndum sem hafa náð góðum tökum á þessu. Það sé einnig að gerast á Íslandi. Hún segir skýringarnar á þessari stöðu eru nokkrar og nefndi slakanir á takmörkunum, minni sóttvörnum einstaklinga og aukin ferðalög fólks. „Okkur grunar að flest þessi smit komi erlendis frá,“ sagði Alma.

„Við þurfum að halda árvekni og vegna stöðunnar hérlendis, þar sem við erum að sjá samfélagslegt smit þá þurfum við að vera vel á verði og láta taka sýni við minnsta grun. Þeir einstaklingar sem hafa verið að greinast undanfarið hafa verið með væg einkenni,“ sagði hún.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur þegar hafið undirbúning að frekari skimunum. „Það á ekki að vera nein bið fyrir þá sem þurfa að koma fara í sýnatöku.“