Hertar reglur í Belgíu vegna fjölgunar smita

28.07.2020 - 18:33
epa08568939 Belgian Prime Minister Sophie Wilmes speaks during a press conference after a meeting of the National Security Council, consisting of politicians and intelligence services, to discuss the deconfinement in the ongoing COVID-19 crisis in Brussels, Belgium, 27 July 2020. The reported COVID-19 contaminations are rising again. It is expected that some measures will be tightened again, instead of opening the next phase. Due to the health situation in Belgium, the National Security Council was brought forward by four days.  EPA-EFE/FRANCOIS LENOIR / POOL
Sophie Wilmes, forsætisráðherra Belgíu. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
COVID-19-smitum hefur fjölgað um 71 prósent í Belgíu síðustu daga, miðað við stöðuna fyrr í mánuðinum. Flest eru þau í Antwerpen-héraði. Eftir tíu tíma fund í nótt ákváðu yfirvöld þar að grípa til útgöngubanns á nóttunni. Þá verður öllum líkamsræktarstöðvum og skemmtistöðum lokað. 

„Við ráðleggjum öllum sem ekki búa í Antwerpen-héraði að koma ekki hingað. Við biðjum fólk að gera þetta með heilsu sína og ástvina sinna í huga,“ sagði Cathy Berx, héraðsstjóri Antwerpen, að fundinum loknum snemma í morgun. Fólk má aðeins fara út á nóttunni til að fara til vinnu eða á spítala. Þá verður skylda að vinna heima fyrir fólk sem það getur og héraðsstjórinn biður fólk um að halda alls ekki partý. 

Sú regla tekur gildi í Belgíu á morgun að heimilisfólk á hverju heimili má aðeins hitta sömu fimm manneskjurnar næsta mánuðinn. Þetta á ekki við um börn tólf ára og yngri. Með þessu er reynt að koma í veg fyrir að grípa þurfi til útgöngubanns og eins til að auka líkur á að skólastarf geti orðið með eðlilegum hætti í haust. Aðeins mega hundrað manns koma saman innandyra og tvö hundruð utandyra. Þá verður sú regla í gildi að aðeins má halda að hámarki tíu manna veislur.

epa08568597 A nurse prepares a screening test for Covid-19 at a church in Antwerp, Belgium, 27 July 2020. A chapel of the Sint-Rochus Church has been converted into a Covid-19 screening center, as cases of Covid-19 patients have tripled in one week in Antwerp.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
Hjúkrunarfræðingur undirbýr skimun í kirkju í Antwerpen. Mynd: EPA-EFE - EPA

Faraldurinn var mjög skæður í Belgíu fyrr á árinu. 66.000 smit voru greind og 9.821 létu lífið úr farsóttinni. 

Þjóðverjar tilgreindu í morgun þrjú héröð á Spáni sem varað er við ferðum til, nema brýn nauðsyn krefji. Þetta eru héröðin Navarra, Aragon og Katalónía. Belgísk yfirvöld vara einnig við ferðum til tveggja síðastnefndu héraðanna. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi