Gyða Kristín hetja Stjörnunnar í tíu marka leik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Gyða Kristín hetja Stjörnunnar í tíu marka leik

28.07.2020 - 21:40
Stjarnan og Þróttur Reykjavík skildu jöfn 5-5 í stórskemmtilegum leik í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í Garðabæ í kvöld. Þróttur náði tveggja marka forystu í fjórgang í leiknum.

Liðin voru jöfn að stigum, með sex hvort, í áttunda og níunda sæti deildarinnar eftir að ÍBV, sem var einnig jafnt þeim að stigum, vann Selfoss fyrr í kvöld.

Stjörnukonur voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og var það því gegn gangi leiksins þegar Sóley María Steinarsdóttir kom Þrótti í forystu eftir 13 mínútna leik. Þá tvöfaldaði Laura Hughes forystuna aðeins þremur mínútum eftir það. 2-0 stóð fyrir Þrótt fram á 28. mínútu þegar Jana Sól Valdimarsdóttir minnkaði muninn fyrir Stjörnuna.

Hin 17 ára gamla Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, lánskona hjá Þrótti frá Val, tvöfaldaði forskot Þróttar á ný á 40. mínútu en Arna Dís Arnþórsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, breytti stöðunni í 3-2 þremur mínútum eftir það. Ólöf hafði þó ekki lokið sér af og skoraði sitt annað mark undir lok fyrri hálfleiks, staðan í leikhléi því 4-2 fyrir gestina.

Jasmín Erla Ingadóttir minnkaði muninn enn á ný fyrir Stjörnuna eftir tæplega stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik en Ólöf Sigríður fullkomnaði þrennu sína er hún kom Þrótti tveimur mörkum yfir í fjórða sinn í leiknum á 75. mínútu. Skömmu eftir mark Ólafar kom Gyða Kristín Gunnarsdóttir inn sem varamaður í liði Stjörnunnar. Sú átti eftir að breyta leiknum þar sem hún breytti stöðunni í 5-4 á 83. mínútu og þá jafnaði hún 5-5 með öðru marki sínu fimm mínútum síðar. Stjarnan pressaði stíft á Þrótt undir lokin en mörkunum fjölgaði ekki frekar.

Liðin skildu jöfn 5-5 og eru því enn jöfn að stigum í töflunni með sjö stig. Þau fara bæði upp um eitt sæti þar sem KR er einnig jafnt þeim að stigum. KR er með lökustu markatöluna og fer niður í níunda sæti, fallsæti, Stjarnan er í því áttunda og Þróttur sjöunda.