Flugumferðarstjórar og Isavia ANS semja

28.07.2020 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Samkomulag hefur náðst í deilu Isavia ANS og flugumferðarstjóra vegna skerðingar á vinnu og launum flugumferðarstjóra.

Isavia ANS, dótturfélag Isavia, sem sinnir alþjóðaflugi á Norður-Atlantshafi sagði í maí upp hundrað flugumferðarstjórum og réð þá aftur í 75% starf. Þetta var gert þar sem flugumferð var aðeins 10-20% af því sem hún var í fyrra, vegna COVID, með tilheyrandi tekjuskerðingu. Flugumferðarstjórar töldu að Isavia hefði ekki virt kjarasamningsbundin ákvæði, meðal annars með tilliti til starfsaldurs hjá Isavia, óháð vinnustað. En nú hefur náðst samkomulag.

„Það felst í samkomulaginu að þær uppsagnir sem voru framkvæmdar í maí af hálfu Isavia ANS eru dregnar til baka og félagsmenn FÍF hjá Isavia ANS taka á sig skerðingar til að koma til móts við þá lausafjárþörf sem var uppi,“ segir Arnar Hjálmsson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

Hann segir að þessi niðurstaða sé skárri en sú sem flugumferðarstjórar stóðu frammi fyrir.

„Það er minni óvissa fyrir okkar félagsmenn í þessu samkomulagi heldur en hinni leiðinni sem átti að fara. Þannig að að okkar mati var þetta illskársta niðurstaðan.“

Samkomulagið gildir til áramóta. Að sögn Arnars var það samþykkt með um 70% atkvæða, þar sem um hundrað af hundrað og fimmtíu félagsmönnum greiddu atkvæði.

„Eftir áramót förum við bara aftur inn á þau kjör sem voru í gildi áður en samkomulagið var gert.“
100% starf?
„Já, við erum raunar áfram í 100% starfi, ráðningarsambandið er óbreytt, ráðningarhlutfall félagsmanna er óbreytt og það verður áfram. En við förum aftur í óbreyttan vinnutíma og óbreytt laun.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi