Ég er bara lítill sólargeisli

Mynd: Aðsend mynd - Smári Róbertsso / Aðsend mynd - Smári Róbertsso

Ég er bara lítill sólargeisli

28.07.2020 - 13:07

Höfundar

„Og hér er hann kominn, lítill sólargeisli sem skoppaði á þakinu okkar í Emstrum fyrir nokkrum dögum, trítlandi á öldum ljósvakans, útvarpsbylgjur festar í hljóðbylgjur úr hátölurum og heyrnartólum sem óma svo sem titringur í hljóðhimnunum þínum, þar sem hann kristallast sem óljós minning um útvarpspistil sem þú heyrðir einu sinni.“ Listamennirnir Smári Róbertsson og Nína Harra gefa hlustendum Sumarmála á Rás 1 innsýn í líf sitt sem skálaverðir í Emstrum.

Smári Róbertsson skrifar:

Ég skælbrosi svo blítt framan í sólarselluna að batteríin fyllast um þrjú prósent. Fjögur hundruð níutíu og níu sekúndum síðar skellur sólargeisli á þakið. Dynkur eins og þegar smáfugl skellur á rúðu nema hann jafnast út flatur og sogast inn í síðsumarkvölds-bláma yfirborðsins. Þar hamast hann svo eins og býfluga í gluggakistu þar til hann sogast niður vír sem liggur á suðausturhorni skálans ofan í litla kistu inn í aðra af tveim rafhlöðunum. Hér inni er annað hvort tímabundið helvíti eða stórskemmtilegt partí og það fer eflaust eftir því hvernig týpa þessi geisli er eða hvort hann sé hlaðinn af einveru til að hitta aðra eða hvort hann hitti aðra til að hlaða fyrir einveru.

Svo einhverju síðar kemur tími þar sem honum er prumpað upp úr batteríinu inn í straumbreyti, sem er ekkert endilega eini rétti straumurinn heldur bara algengasta siðabótakerfi samfélagsins sem hann fyrir tilviljunar sakir var vígður inn í. Hér fylgir hann hefðum þrátt fyrir að trúa ekkert endilega á boðskapinn heldur veit hann að ef hann spilar með fylgja gjafir og öruggt samþykki eldri kynslóða. En það er ekki trúarsiður til án afleiðinga og veit hann þá kannski ekki að hér liggur boðskapur ríkjandi hugmyndafræða smurður ofan á hefðir og helgisiði og þó hann þykist komast hjá því að innbyrða þýðingu þeirra hefur hann nú þegar í ásetningi sýnum samþykkt sem sjálfsagðan sannleik grundvallarkreddur samfélagsins. Subliminal eða neðanmarkaáróður sem liggur svo samsíða og sjálfsagður að betra væri að forskeyta hann supra- eða yfirmarka merkingu allra mikilvægra hreyfinga. En það enn tími til að afsala þessu öllu.

Hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór litli sólargeisli?

Hann hoppar og skoppar af hamingju inni í fjöltenginu. Við og við píra litlu augun hans út um götin á innstungunum njósnandi um gesti litla kastalans síns í fjallshlíðinni eins og sjúkur greifi úr þess gerðum tvíhliða málverkum.

Sjúkket, ég rétt slapp við socket-sjokkið. Ég sting hleðslutækinu inn og hann bunar inn í liþíum-rafhlöðu fartölvunnar. Ég vona að það fari vel um hann. Ég tylli mér og legg fingurna á lyklaborðið og reyni að ákveða hvaða not við höfum fyrir þennan litla kút. Eitthvað verður hann að gera og helst þarf það að virka mikilvægt eða að minnsta kosti þjóna einhverjum tilgangi í þágu heildarmyndarinnar. Helst þarf hann finna opið pláss inni í tölvunni, stað sem áður sat gömul og grá vindhviða frá Hollandi, lítill gufugaur af Hellisheiðinni eða jafnvel ný fallinn úr vatnssprænu úr Hrauneyjafossi.

Samkvæmt vélbúnaði tölvunnar ætti hann að koma sér fyrir og halda áfram verkefnum sem aðrir skyldu eftir ókláruð og klárast líklegast aldrei að fullu. Einhvern veginn erum við öll sammála um það að ef hann gerir ekki eitthvað svona þá skuli hann svelta. Ef hann neitar að taka sér sæti eða ef öll sæti eru einfaldlega full sæmir honum ekki húsaskjól og ætti hann þá helst bara að flakka sem lítill straumur upp í næsta fingurgóm einfaldlega vegna þess að fyrirkomulagið okkar er einhvern veginn þannig og við öll sammála um það að það væri hreinlega ósanngjarnt ef hann fengi bara að gera ekki neitt án þess að svelta.

En svo, þrátt fyrir mikla mótspyrnu, fellur hann einhvern veginn inn í vinnu sem hann skammast sín ekkert of mikið fyrir og er í rauninni bara smá töff og flott. Það er góður mórall á vinnustaðnum án þess að vera þvingaður og alls konar fríðindi sem eru samt ekkert of mikil frávísun eða seðjun tímakaupsins. Stundum fær hann meira að segja að vera smá skapandi og svo ræður hann svona nokkurn veginn eigin tíma.

Stafrænn holdgervingur gamalla orða

Ævistarfið komið á enda er hann flýgur inn í hljóðkortið og þaðan út í hljóðnemann. Hér kjamsar hann á þessum töluðu orðum og sameinast titringi raddbandanna í eitt sem hljóðskrá inn í hljóðvinnsluforriti í fartölvunni. Eðlislega er hann orðinn að minningu. Stafrænn holdgervingur gamalla orða sem einu sinni skriðu meðfram veggjum í fjallaskála. En þó orðin hljóðni og deyi út er sólargeislinn enn mjög lifandi.

Endurfæddur finnur hann sig í föstu formi tvíundakerfisins. Og nær hann bara rétt svo að átta sig á umhverfi sínu áður en hann rennur út í þráðlaust net herbergisins. Hér leikur hann lausum hala í stutta stund því Emstrur eru utan farsímasambands og þarf hann því að dansa upp brekkuna hér á hæðina fyrir ofan sérstakan örbylgjuvals. Þegar hann kemur upp að örbylgjusendinum tekur hann stórt tilhlaup og kastar sér svo tvífætis aftur á bak eins hástökkvari. Héðan skoppar hann, fleytt kerling á Hattfell, yfir Fauskheiði og Markarfljót á Stóra Grænafjall, fram hjá Sátu, á Hagafell og yfir Laufalæk upp á Laufafell.

Héðan tekur hann línudans í bæinn, alla leið upp í Efstaleiti í útvarpshúsið. Þar er tekið á móti litla ljósálfinum okkar af ljósleiðara ljósmóður sem fer svo vandlega yfir hann áður en hún sendir hann aftur út í loftið. Og hér er hann kominn, lítill sólargeisli sem skoppaði á þakinu okkar í Emstrum fyrir nokkrum dögum trítlandi á öldum ljósvakans, útvarpsbylgjur festar í hljóðbylgjur úr hátölurum og heyrnartólum sem óma svo sem titringur í hljóðhimnunum þínum, þar sem hann kristallast sem óljós minning um útvarpspistil sem þú heyrðir einu sinni.

Og frá því að þessi pistill fór í loftið hefur nú nýr sólargeisli tekið stökk frá sólinni og í þann mund sem við erum að klára hér er hann rétt að lenda á sólarsellunni á þakinu í Emstum, tilbúinn til verða að nýjum pistli að viku liðinni.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Andfýla borgarinnar minnir á mikilvægi fjallaloftsins

Hafnarfjarðarkaupstaður

Einmanalegt og stórfurðulegt að vera landvörður núna