Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dæmi um milljóna skuldir vegna fylgiréttargjalda

28.07.2020 - 13:48
Mynd með færslu
Uppboð hjá Gallerí Fold fyrir nokkrum árum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Mynd: Gallerí Fold - youtube.com
Dæmi eru um að fyrirtæki skuldi milljónir í fylgiréttargjöld. Mörg mál eru í gangi hjá Myndstef og nokkuð um kennitöluflakk vegna skuldanna. Þetta staðfestir Aðalheiður Dögg Finnsdóttir Helland, framkvæmdastjóri Myndstefs. Gallerí Fold er eitt þeirra fyrirtækja sem eru treg til að greiða gjaldið segir varaformaður SÍM.

Þegar listaverk ganga endursölu á listamaðurinn rétt á greiðslu svo nefnds fylgiréttargjalds, sem nemur 10% af söluandvirði verksins fyrir þau verk sem seljast undir 3.000 evrum.

Fylgiréttargjaldinu er ætlað að tryggja að listamaður njóti góðs af því hvernig verk hans eru verðlögð. Gjaldið eiga seljendur, eða milliliðir sem sjá um endursölu verka, að innheimta af kaupendum verkanna og greiða Myndstef, sem sér svo um að koma greiðslunni til viðkomandi listamanns.

Líkt og RÚV fjallaði um í gær er hins vegar nokkur misbrestur á að gjaldið sé greitt.

Mörg mál í gangi hjá Myndstef

Aðalheiður Dögg segir Myndstef vita af aðilum sem þekkja vel til fylgiréttargjaldsins, en eru ekki að innheimta og greiða það. „Því miður í mörgum tilvikum er mjög erfitt fyrir okkur hjá Myndstefi að fara á eftir þeim aðilum,“ segir hún. Þá eru dæmi um að fyrirtæki skipti um kennitölu um leið og Myndstef hefur innheimtu.

Mörg mál eru í gangi hjá Myndstefi varðandi innheimtu á fylgiréttargjöldum. Aðalheiður Dögg segist ekki geta greint frá hverjir eiga þar hlut að máli þar sem málin séu í ferli.

Hún staðfestir þó að dæmi séu um fyrirtæki sem skulda milljónir í fylgiréttargjöld. „Ég get staðfest að það eru slík mál á borði Myndstefs,“ segir hún.

Erfitt að fá Gallerí Fold til að greiða

Hlynur Helgason, varaformaður Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), segir Gallerí Fold vera eitt þeirra fyrirtækja sem skulda listafólki fylgiréttargjald. „Í gegnum tíðina hefur verið erfiðleikum bundið að fá ýmsa aðila, þar á meðal Gallerí Fold til að standa skil á þessum 10% hluta af söluandvirði sem listamenn eiga að fá,“ segir hann.

Hlynur segir skuld Gallerís Foldar vera töluverða. „Síðast þegar ég vissi var um einhverjar milljónir að ræða,“ segir hann. Þetta hafi að minnsta kosti hafa verið staðan í vetur og þá hafi skuldirnar náð einhver ár aftur í tímann.

„Gallerí Fold hefur mótmælt þessu oft og ekki fundist það vera skylda sín að halda þessu eftir,“ segir hann og bætir við að fylgiréttargjaldið sé mikilvægt hagsmunamál fyrir myndlistarmenn og fjölskyldur þeirra.

Vilja auknar refsiheimildir

Aðalheiður Dögg ræðir ekki einstök mál á meðan þau eru í ferli hjá ríkislögreglustjóra. Hún segir það mesta sem Myndstef geti gert vera hins vegar að kæra viðkomandi fyrir fjárhagsbrot. Slíkt tekur þó alltaf langan tíma.

Ekki eru heldur öll málin vegna einstaklinga eða fyrirtækja sem ekki vilja greiða því einnig koma upp mál þar sem viðkomandi getur ekki greitt.

Bæði SÍM og Myndstef vilja sjá auknar refsiheimildir vegna vangreiddra fylgiréttargjalda, til að mynda að hægt verði að beita sektum og dráttarvöxtum.

„Við myndum vilja sjá að farið væri með þetta á svipaðan hátt og virðisaukaskattinn og viðurlög yrðu svipuð,“ segir Hlynur. „Þá yrði miklu auðveldara fyrir listamenn að sækja rétt sinn gagnvart þessu fyrirtækjum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Listfraedi.is
Hlynur Helgason segir fylgiréttargjaldið vera mikilvægt hagsmunamál fyrir listamenn og fjölskyldur þeirra.