
Búist við talsverðum fjölda fólks til Eyja um helgina
Lögreglan verður með viðbúnað í Eyjum líkt og fyrri ár þótt ljóst sé að ekkert verði af Þjóðhátíð. „Viðbúnaðurinn felst aðallega í því að bætt hefur verið við [mannskap] á bæði dag- og næturvaktir. Svo verður sérsveitin okkur til aðstoðar líkt og síðustu ár. Einnig verða menn í fíkniefnaeftirliti með fíkniefnahund,“ segir hún. Þá fylgist lögreglan vel með því hvort reglur um fjöldatakmarkanir séu virtar.
Biðlistar í Herjólf
Arndís segir að búist sé við einhverju skemmtanahaldi í Eyjum. Hún segir að það verði öðruvísi í sniðum og sennilega dreifðara en vanalega. Viðbúnaður lögreglunnar miðast við að talsverður fjöldi verði í Eyjum um helgina. „Við höfum verið að miða við stóra Goslokahátíð, kannski aðeins rúmlega það,“ segir hún. Hún bendir á að veðrið spili einnig inn í enda Íslendingar þekktir fyrir að „elta veðurspána“ um verslunarmannahelgina.
Flutningsgeta Herjólfs er um 3.000 farþegar á sólarhring. Samkvæmt upplýsingum frá Herjólfi hefur selst mjög vel í ferjuna. Ferðum hefur verið bætt við fram í næstu viku vegna eftirspurnar. Margir eru enn á biðlista.

Brennan sennilega tendruð
Aðstandendur Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum tilkynntu fyrr í sumar að hátíðinni yrði með aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. ÍBV mun ekki standa fyrir neinum viðburðum í Eyjum um helgina. Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri félagsins, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi heyrt um að kveikt verði í brennunni, hefðinni samkvæmt. Hörður segir jafnframt að fengist hafi leyfi fyrir allnokkrum tónlistarviðburðum á svæðinu en þeir eru ekki á vegum ÍBV.
Hann segir að flestir sem keyptu miða á Þjóðhátíð í ár hafi fengið endurgreitt. Þónokkrir hafi beðið um að halda eftir miðum í Herjólf og fá aðeins miðann á Þjóðhátíð endurgreiddan. Hörður segir að ekki hafi verið boðið upp á slíkt. Hann segir að það komi sér ekki á óvart að aðkomumenn vilji verja verslunarmannahelginni í Eyjum. Hann býst þó við að mun minna verði um að vera en vanalega. „Þetta verða fyrst og fremst Vestmannaeyingar að halda sína eigin hátíð,“ segir hann.