Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Búa sig undir frekari fjölgun smita og samræma sýnatöku

28.07.2020 - 19:40
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu býr sig undir enn frekari fjölgun smita með því að samræma sýnatöku á einum stað, í gamla Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut. Til stendur að setja upp tjald á bílastæðinu þar sem fólk sem er með einkenni COVID-19 fer í skimun.

Nú þegar er verið að skima fólk sem ekki er með nein einkenni í gamla Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut 34. „Hér erum við að taka á móti fólki í landamæraskimun. Fólki sem er að koma í gegnum Reykjavíkurflugvöll og eins í gegnum hafnirnar hér á höfuðborgarsvæðinu, allar skútur sem eru að koma til landsins og síðan erum við líka að taka hérna sýnatökur af fólki sem er að koma í aðra skimun,“ segir Ragnheiður Ósk Erlingsdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er fólk sem búið er að fara í eina sýnatöku og hefur viðhaft heimkomusmitgát í fjóra til sex daga.

Undirbúa skimun á fólki með einkenni

Þá er verið að undirbúa að fólk sem er með einkenni COVID-19 fari líka í skimun í gamla orkuhúsinu á Suðurlandsbraut á næstu dögum. „Við erum að kanna möguleikana hér úti á því að setja upp tjald þannig að við munum áfram allavega fyrst um sinn taka sýnin úr bílunum eins og við höfum gert,“ segir Ragnheiður og bætir við: „En þess skal geta að þetta er eingöngu fyrir þá sem hafa farið í gegnum sínar heilsugæslustöðvar. Það verður áfram að fólk sem er með einkenni á hafa samband við sína heilsugæslustöð og fá þar mat á því hvort það eigi að koma í sýnatöku eða ekki. Og það á að gera símleiðis eða í gegnum Heilsuveru en alls ekki mæta á heilsugæsluna með einkenni.

„Við erum að búa okkur undir það að það gæti orðið aukning á smitum þannig að við viljum vera viðbúin því. Þetta er líka ákveðin hagræðing. Ef við lendum í því eins og í vor með mjög mikið af sýnatökum að þá er oft betra að vera með þetta á einum stað,“ segir Ragnheiður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ragnheiður Ósk Erlingsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkurnar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Og sýnatakan sjálf er ekki það eina sem starfsfólkið fæst við, einnig er verið undirbúa sýnatökuglös sem meðal annars eru notuk við landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli. „Hún er að fylla á sýnatökuglös, það er að segja hún er að setja æti - einn og hálfan millilíter af æti í hvert glas. Það er nauðsynlegt til þess að setja sýnatökupinnana í og er hluta af þessum pakka sem oft hefur verið talað um,“ útskýrir Margrét Héðinsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Vanalega er hægt að kaupa þau tilbúin til notknuna. „En það er náttúrulega samkeppni um allan heim að fá þessi glös þannig að það hefur verið erfitt að fá þau og þá höfum við bjargað okkur með þessu. Það er búið að setja hér í einhver 12.000 glös,“ segir Marrét.