Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allir taka frásögn sálfræðingsins með fyrirvara

Mynd: RÚV / RÚV

Allir taka frásögn sálfræðingsins með fyrirvara

28.07.2020 - 09:25

Höfundar

Meðal vinsælustu glæpasagna síðustu missera hafa verið þær sem fjalla um konur sem lenda í skelfilegum hremmingum en er ekki trúað þegar þær leita hjálpar. Þerapistinn eftir Helene Flood fellur eins og flís við rass í þennan flokk sagna segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi.

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar:

Meðal vinsælustu glæpasagna síðustu missera hafa verið þær sem fjalla um konur sem lenda í skelfilegum hremmingum en er ekki trúað þegar þær leita hjálpar. Ástæðurnar fyrir meintum ótrúverðugleika þeirra geta verið af ýmsum toga svo sem geðræn vandamál eða saga um neyslu vímuefna eða annarra lyfja og þær eru í besta falli stimplaðar vænisjúkar en í versta falli hættulegar sjálfum sér og umhverfi sínu.

Þerapistinn, nýútkomin spennusaga eftir norska rithöfundinn Helene Flood, sem kemur nú út í ljómandi góðri þýðingu Höllu Kjartansdóttur, fellur eins og flís við rass í þennan flokk sagna. Þar segir frá sálfræðingnum Söru. Eiginmaður hennar, Sigurd, hverfur sporlaust. Þegar hún fer að leita svara í lífi þeirra kemur ýmislegt óþægilegt upp úr krafsinu og svo virðist sem Sigurd hafi ekki verið allur þar sem hann var séður.

Upp frá því fara fleiri skelfilegir atburðir, úr fortíð og nútíð, að hrella Söru og gera henni lífið óbærilegt. Lögreglan virðist taka frásögn hennar með miklum fyrirvara og jafnvel gruna hana um græsku og því stendur hún ein þegar hún áttar sig á því að óboðinn gestur hefur verið í íbúð hennar, oftar en einu sinni.

Húsið hættir að vera griðastaður

Sara vinnur sem þerapisti með ungu fólki í vanda og fær skjólstæðinga til sín á skrifstofuna sem er staðsett fyrir ofan bílskúrinn á heimili hennar og eiginmannsins. Þetta er glæsilegt hús, á besta stað í bænum, sem þau erfðu eftir afa Sigurds.

Það er þó á stöku stað varla fokhelt þar sem þau hjónin eru hálfnuð með að gera það upp eftir teikningum Sigurds sem er arkitekt að mennt. Endurbæturnar ganga hægt enda tefja stanslaus vinna og peningaskortur fyrir framkvæmdum og hefur álagið sem þetta veldur sett sitt mark á hjónabandið.

Þegar svo Sigurd hverfur hættir húsið í raun að vera griðastaður og verður ógn í sjálfu sér, ókláruð gólfin, ískalt baðherbergið, gamlir og óþéttir gluggarnir eru ekki verndandi skjól heldur óvinveitt og ókunnugleg skel. Þegar hlutir fara svo að færast til og Sara telur sig heyra undarlegt brak í gömlum gólffjölum á næturnar virðist fokið í flest skjól.

Sálfræðingurinn hefur einangrast

Sara er fremur einræn og hefur á undanförnum árum eiginlega einangrað sig. Hún hætti á sameiginlegri vinnustofu, hefur misst sambandið við gamlar vinkonur úr námi í Bergen, tengslin við tengdafjölskylduna hafa aldrei verið sérlega góð og faðir hennar er fræðimaður með afskaplega einstrengingslegar skoðanir á þjóðfélagsmálum sem hvorki hún né eldri systir hennar Annika, tengja sérlega við. Það er helst Annika sem stendur henni nærri, en hún á hins vegar þrjú börn undir tíu ára aldri og er í krefjandi vinnu svo þær hittast takmarkað.

Hálfklárað húsið, sú staðreynd að Sara vinnur ein og hittir í raun fáa aðra en misveika skjólstæðinga gerir það að verkum að hún er varnarlaus og berskjölduð þegar Sigurd hverfur og undarlegir atburðir fara að gerast.

Hún er, skiljanlega, á barmi taugaáfalls, en reynir hvað hún getur að beita eigin meðölum á sjálfa sig, að greina aðstæður og viðbrögð sín með aðferðum sálfræðinnar. Þannig skapar hún ákveðna fjarlægð milli sín og atburðanna en verður um leið dálítið köld og dofin. Aðstæður Söru eru vissulega skelfilegar, en viðbrögð hennar eru hálfóþægileg og hún er ekki fær í mannlegum samskiptum. Ástæðurnar fyrir atferli hennar og líðan liggja mögulega í fortíðinni sem nú ber fast að dyrum.

Höfundurinn sjálfur er sálfræðingur að mennt

Höfundurinn, Helene Flood, er sjálf sálfræðingur að mennt og starfar sem slíkur í Ósló þar sem hún býr ásamt eiginmanni og tveimur börnum. Þerapistinn, hennar fyrsta skáldsaga fyrir fullorðna, hefur nú þegar slegið í gegn og er þýðinga að vænta á hátt í þrjátíu tungumálum eftir því sem stendur á bókarkápu.

Sagan er enda afskaplega spennandi og svo sannarlega enginn viðvaningsbragur á uppbyggingu eða úrvinnslu. Það er helst að einhverjar brotalamir birtist í persónu Söru sjálfrar, sem virðist, þrátt fyrir eigin sálrænu úrvinnslu, ekki hafa til að bera mikla sjálfsþekkingu og vera í litlum tengslum við sjálfa sig.

Lesandinn kynnist henni því ekki mjög grannt og tengist henni ekki sem skyldi. Mögulega er þetta að hluta til með vilja gert þar sem lesandinn er fram á síðustu stundu í sömu sporum og lögreglan, ekki alveg viss um hvort hægt sé að treysta Söru auk þess sem fortíðin skýrir vissulega margt.

Aukinheldur virðist flest fólk sem verður á vegi Söru fara í taugarnar á henni og raunar er ekki mikið um viðkunnanlegar persónur í bókinni að Anniku, systur Söru, undanskilinni. Þetta er bæði kostur og galli, lesandinn á í engum vandræðum með að finna tortryggilegar persónur og þetta eykur á óhugnað frásagnarinnar, en um leið verður ákveðinn skortur á samúð með aðalsöguhetjunni.

Hvað sem því líður er engum blöðum um það að fletta að sagan er æsispennandi, frásögnin þétt og hátt í fjögur hundruð blaðsíður þjóta hjá. Þetta er vissulega ein af þessum margumræddu, goðsagnakenndu spennusögum sem erfitt er að leggja frá sér ókláraða.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Af hverju eru glæpasögur svona vinsælar?

Bókmenntir

Sumarið er árstíð glæpasagna

Menningarefni

Færeysk glæpasería í burðarliðnum

Erlent

Af hverju elskum við sannar glæpasögur?