Þurftu að fara í gegnum 7 metra skafl til að opna veg

27.07.2020 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: Grétar Ásgeirsson - Vegagerðin
Eyjafjarðarleið, vegur F821, var opnuð á föstudag. Starfsmenn Vegagerðarinnar þurftu að moka í gegnum sjö metra skafl til þess að geta opnað veginn. Verkið tók einn og hálfan dag. Í færslu á vef Vegagerðarinnar segir að skaflinn hafi í raun verið snjóflóð.

Grétar Ásgeirsson, starfsmaður Vegagerðarinnar, segir ekki algengt að þurfa að moka í gegnum svo stóra skafla. Hann man ekki til þess að svo stórt snjóflóð hafi fallið á þessum slóðum, í það minnsta ekki á undanförnum árum. Flóðið var 75 metra langt og 7 metrar niður á við þar sem mest var. Notuð var hjólaskófla af gerðinni CAT 972M, í eigu Nesbræðra ehf., til verksins. 

Á vef Vegagerðarinnar segir að þessi kafli hálendisvega hafi verið einn síðasti til að opna í sumar. „Það er ekki óvenjulegt að Eyjafjarðarleið opni svona seint að sumri en fyrst hefur leiðin opnast 28. júní en í síðsta lagi einmitt þennan sama dag og í ár, eða 24. júlí, sé tekið mið af opnunum síðustu fimm til sex ára.“ 

Grétar tók myndirnar með þessari frétt og eru þær birtar með góðfúslegu leyfi hans. 

Einn og hálfan dag tók að moka í gegnum skaflinn.
Flóðið var allt að sjö metra djúpt.
Vegurinn er með síðustu hálendisvegunum til þess að opna í sumar.
Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi