Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þjóðaröryggisráðgjafi Trumps veirusmitaður

27.07.2020 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, hefur greinst smitaður af kórónuveirunni, að því er heimildir CNN fréttastofunnar herma. Hann er hæst settur bandarískra embættismanna sem hefur smitast.

Ekki liggur fyrir hvenær þeir Trump og O‘Brien hittust síðast. Þeir komu fram opinberlega 10. júlí þegar þeir heilsuðu upp á hermenn í herstöð í Miami.

O'Brien kom nýlega heim frá Evrópu þar sem hann og næstráðandi hans hittu breska, franska, þýska og ítalska embættismenn. Að sögn CNN hefur þjóðaröryggisráðgjafinn unnið heima síðustu daga. O'Brien tók við embættinu í september í fyrra, eftir að John Bolton, fyrirrennari hans, var rekinn.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV