Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stórt verkefni að endurbyggja traust

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Stjórnenda Icelandair bíður það stóra verkefni að endurbyggja traust á milli sín og starfsmanna félagsins. Þetta segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að það, að félagar í Flugfreyjufélagi Íslands hafi samþykkt kjarasamning sinn við Icelandair, væri mikilvægur liður í átt að hlutafjárútboði félagsins.

„Flugfreyjur og flugþjónar eru algerir fagmenn fram í fingurgóma. Ég hef ekki áhyggjur af mínu fólki,“ sagði Guðlaug Líney í kvöldfréttum Sjónvarps. „Það er nokkuð ljóst að stjórnendur Icelandair eru með stórt verkefni í höndum, það er að endurbyggja traustið.“

„Það sem er lykilatriðið í þessu er að þessir samningar sem voru samþykktir í dag tryggja um leið samkeppnishæfni og sveigjanleika félagsins og stanad vörð um starfskjör flugfreyja og -þjóna Icelandair,“ svaraði Bogi spurður um hvernig hann hygðist endurbyggja traustið á milli stjórnenda og flugfreyja.

Þar sagði hann að útlit væri fyrir að um 200 flugfreyjur og -þjónar yrðu að störfum hjá félaginu í ágúst og september. „Síðan þurfum við að bíða og sjá hvernig veturinn lítur út hjá okkur.“

Icelandair sagði um 95% af flugfreyjum sínum upp í lok apríl. Það eru um 900 flugfreyjur, uppsagnarfrestur þeirra er mislangur. Hjá þeim sem stysta starfsævi hafa er hann þrír mánuðir og lýkur því núna um mánaðamótin. Í þeim hópi eru um 90% af flugfreyjum Icelandair. 

Uppsagnirnar munu taka gildi og svo verður hluti hópsins ráðinn aftur. Að sögn Boga verður farið eftir starfsaldri og frammistöðu.