Spekúlantar fá engar viðurkenningar frá Óskari Hrafni

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Spekúlantar fá engar viðurkenningar frá Óskari Hrafni

27.07.2020 - 10:12
Breiðablik vann í gærkvöld sinn fyrsta leik í Pepsi-Max deild karla í fótbolta síðan í 3. umferð deildarinnar, 29. júní. Blikar unnu Skagamenn í skemmtilegum átta marka leik, 5-3 í gærkvöld á Kópavogsvelli. Í síðustu fimm leikjum á undan höfðu Blikar gert tvö jafntefli og tapað þremur.

Eftir að hafa flogið hátt snemma móts var umræðan kannski eðlilega á neikvæðari nótum á meðan illa gekk hjá Breiðabliki. Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks sagði meðal annars í viðtali við RÚV eftir sigurinn á ÍA í gærkvöld að með sigrinum væru Blikar að svara umræðunni eins og hún hefur verið upp á síðkastið. En hefur þessi umræða farið alla leið inn í búningsklefann hjá Blikum?

„Nei, það var nú ekki þannig. En hins vegar er það þannig að umræðan situr í loftinu sem er bara fínt. Öll umræða er góð og allir geta haft sínar skoðanir. En þeir sem að sitja og horfa á og benda á hvað má betur fara, þeir fá ekki viðurkenningu frá mér. Það eru leikmennirnir sem leggja á sig 90 mínútur af blóði, svita og tárum. Þeir fórna sér í hluti og sýna hugrekki á stundu þegar það er kannski erfitt að sýna hugrekki og sýna gríðarlegan karakter. Það eru þeir sem að fá viðurkenningu frá mér - aðrir ekki,“ sagði Óskar Hrafn meðal annars eftir 5-3 sigur Breiðabliks á ÍA í gærkvöld.

Breiðablik er í 3. sæti Pepsi Max deildar karla með 14 stig eftir níu leiki, þremur stigum frá toppliði KR. Liðin í kringum Blika í deildinni eiga þó öll leiki til góða á Breiðablik.