Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja ólögleg viðskipti þrífast í skjóli sparisjóðs

úr umfjöllun Kveiks um smálán
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Formaður Neytendasamtakanna fullyrðir að ólögleg viðskipti þrífist í skjóli Sparisjóðs Strandamanna en bankinn veitir innheimtufyrirtækinu Almennri innheimtu ehf., sem sér um innheimtu smálána, aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna segir að viðskiptin séu nú til endurskoðunar.

Neytendasamtökin hafa um skeið barist gegn smálánafyrirtækjum og samstarfsaðilum þeirra. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að Sparisjóður Strandamanna sé eina fjármálafyrirtækið sem eigi í viðskiptum við Almenna innheimtu, öll önnur hafi látið af þeim eftir ábendingar samtakanna. Hann segir að Neytendasamtökin hafi ítrekað farið fram á það við Sparisjóðinn að slíta þessum viðskiptum.

„Þá fengum við þau svör að viðskiptavinir Sparisjóðsins væru ekki vandamál Neytendasamtakanna,“ segir Breki.

Einhver gæti haldið að þeim væri frjálst að eiga viðskipti við þá sem þeim þóknast. „Að sjálfsögðu. En þá er öllum almenningi einnig frjálst að eiga viðskipti við fyrirtæki sem er samfélagslega ábyrgt.“

Hyggjast þrýsta á Sparisjóðakerfið

Breki segist vonast til að fá þau svör frá Sparisjóðnum að viðskiptum við innheimtufyrirtækið verði slitið. „En ef ekki, þá verðum við að þrýsta á Sparisjóðakerfið í heild sinni. Því að ekki trúi ég því að aðrir sparisjóðir vilji láta kenna sig við smálánastarfsemi,“ segir Breki.

Björn Líndal Traustason, sparisjóðsstjóri Strandamanna, segir að verið sé að endurskoða viðskiptin og að málið verði tekið fyrir á næsta fundi stjórnar sparisjóðsins.

Neytendasamtökin fullyrða að ólögleg starfsemi þrífist í skjóli sjóðsins. Hvað viltu segja um það? „Ég er ósammála því.“ 

Munið þið slíta þessum viðskiptum? „Það verður metið af stjórnarmönnum.“