Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur samþykkt að veita Suður-Afríku neyðarlán að andvirði 4,3 milljarða bandaríkjadollara, eða sem nemur rúmlega 580 milljörðum íslenskra króna.
Stjórn AGS samþykkti ákvörðunina í dag. Hún var samþykkt á grundvelli aðgerðaráætlunarinnar Rapid Financing Instrument (RFI). Markmið RFI er að veita aðildarríkjum sem lent hafa í skyndilegum fjárhagslegum skakkaföllum skjóta aðstoð.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á efnahag Suður-Afríku. Hvergi hefur verið tilkynnt um jafnmörg tilfelli sunnan Sahara og þar í landi. Stjórnvöld hafa unnið hörðum höndum að því að sporna gegn áhrifum faraldursins á almenning og lítil fyrirtæki.
AGS hefur á þessu ári veitt fjölmörgum ríkjum lán vegna kórónuveirufaraldursins, þar af þrjátíu í Afríku sunnan Sahara.