Rúnar Þórisson - Ferjumaðurinn

Mynd: Rúnar Þórisson / Rúnar Þórisson

Rúnar Þórisson - Ferjumaðurinn

27.07.2020 - 14:33

Höfundar

Rúnar Þórisson gaf nýlega út fimmtu breiðskífu sína. Hún ber heitið Ferjumaðurinn og sækir innblástur í gríska goðafræði. Ferjumaðurinn er plata vikunnar á Rás 2 og hefur hlotið lofsamlega dóma gagnrýnenda.

Rúnar Þórisson gaf nýlega út plötuna Ferjumaðurinn á tónlisarveitum. Titill plötunnar vísar í gríska goðafræði, ferjumanninn Karon sem flutti sálir látinna yfir í nýjan heim og í þá reynslu Rúnars að hafa lagt af stað með þeim sama ferjumanni yfir fljótið Akkeron en hins vegar snúið til baka, aftur í mannheima.

Platan er fimmta sólóplatan á 15 ára sólóferli Rúnars en fyrsta plata hans kom út árið 2005. Tónlist Rúnars hefur verið talin tímalaus í þeim skilningi að hún sameini framsækið rokk áttunda áratugarins, kuldarokk þess níunda og svo nýja strauma samtímans. Með tónlistinni vill Rúnar að eigin sögn brúa bilið á milli kynslóða og vakta strauma í tíma og rúmi. Textar Rúnars eru sem fyrr hugleiðingar um hið mannlega og samspil þess að fæðast og vera til, lifa, dafna og deyja.

Ferjumaðurinn hefur hlotið lofsamlega dóma. Arnar Eggert Thoroddsen segir til að mynda: „Eins og með allar sólóplötur Rúnars lýtur þessi eigin lögmálum og er illa sambærileg við nokkuð annað sem í gangi er. [...] Mér finnst eins og Rúnari sé að verða æ meira ágengt með að hefla til og sníða algerlega einstakan stíl, verður með öðrum orðum betri í því með hverju verki.“ 

Og Marcin Kozickijune segir: „Ferjumaðurinn er alveg yndisleg og mögnuð plata sem hefur ótrúlega vídd. Þessi tónlist er dásamlega létt og um leið ákaflega hrífandi. Platan hljómar einfaldlega tilkomumikill.“

Með Rúnari, sem er höfundur efnis og leikur á gítar og syngur, spila þeir Arnar Þór Gíslason á trommur, Guðni Finnsson á bassa, Tómas Jónsson á hljómborð auk þess sem Margrét og Lára, dætur Rúnars, syngja og radda. Upptökumenn voru auk Rúnars þeir Hafþór Karlsson Tempo og Jóhann Rúnar Þorgeirsson og fóru upptökur fram í Dallas studíói og á heimaslóðum. Hafþór hljóðblandaði og Sigurdór Guðmundsson tónjafnaði.

Ferjumaðurinn er Plata vikunnar á Rás 2 og verður send út í heild ásamt kynningum Rúnars á lögunum eftir 10-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg á RÚV.is.

 

Mynd með færslu
Rúnar Þórisson - Ferjumaðurinn