Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ríkislögreglustjóri skoðar mál Gunters

27.07.2020 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Bandaríska sendiráðið
Mál bandaríska sendiherrans á Íslandi sem vill fá leyfi til að bera vopn, er til skoðunar hjá Ríkislögreglustjóra. Engin formleg beiðni hefur borist íslenskum stjórnvöldum.

Fram kom í fréttum RÚV í gær að Jeffrey Ross Gunter sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi teldi öryggi sínu ógnað hér á landi og að hann vildi fá að bera vopn og vera í stunguheldu vesti, auk þess að hafa vopnaða fylgd og skothelda bifreið. Þetta sé vegna þess að hann sé gyðingur.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofan leitaði eftir því, að öðru leyti en að málið væri til skoðunar. Fram kom í gær að samkvæmt nýjasta hættumati Ríkislögreglustjóra eru engar vísbendingar um hryðjuverka- eða öfgahópar starfi hér. Í utanríkisráðuneytinu fást litlar upplýsingar, annað en að það sé á hendi lögreglunnar að sinna málum sem þessum.

Sigríður Á. Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis sagði málið ekki á borði nefndarinnar, það sé í höndum lögreglu auk þess sem formleg beiðni hafi ekki borist íslenskum stjórnvöldum um þessar breytingar. Fordæmi séu fyrir því að vopnaðir verðir fylgi háttsettum gestum, en ef til stæði að veita einstaklingi sem byggi hér á landi slíkt leyfi væri það stefnubreyting og hún kæmi þá til umræðu á Alþingi.

Heimildarmenn bandarísku fréttastofunnar CBS segja Gunter vera haldinn ofsóknaræði. Gunter er tiltölulega nýkominn aftur til starfa, en hann hefur dvalið í Bandaríkjunum. Opinbera skýringin er að kórónuveirufaraldurinn hafi hamlað för, en heimildir CBS herma  að Gunter hafi neitað að snúa aftur til starfa hér á landi fyrr en Pompeo utanríkisráðherra hefði samband við hann, um miðjan maí hafi Pompeo hringt í Gunter og sagt honum að mæta í vinnuna.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV