Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öldungardeildarþingmaður sagður hafa varið þrælahald

Tom Cotton
 Mynd: Wikipedia Commons
Umdeild ummæli bandaríska öldungardeildarþingmannsins Tom Cotton í blaðaviðtali um að þrælahald hefði verið nauðsynlegur grundvöllur þess að Bandaríkin byggðust upp, hafa vakið miklar deilur í Bandaríkjunum. Sjálfur segist hann ekki hafa verið að verja þrælahald. Hann berst nú gegn því að saga þrælahalds verði kennd í grunn- og framhaldsskólum í landinu.

Cotton er Repúblikani og situr fyrir hönd Arkansas-ríkis í öldungadeildinni. Hann hefur barist ötullega gegn því að saga þrælahalds verði kennd í grunn- og framhaldsskólum, en dagblaðið New York Times er í forgöngu um að það verði gert undir heitinu 1619 og hefur það meðal annars fengið Pulitzer-verðlaunin.

Cotton fullyrðir að um áróður vinstri manna sé að ræða og hefur lagt fram frumvarp um að varðveita sögu Bandaríkjanna undir heitinu Björgum sögu Bandaríkjanna (Saving American History). Í því er lagt til bann við að 1619 fái  fé úr opinberum sjóðum. 

Í júní birti New York Times aðsenda grein frá Cotton þar sem hann hvatti til þess að hernum yrði beitt gegn mótmælendum í Bandaríkjunum sem mótmæltu drápinu á George Floyd. James Bennet, ritstjórinn sem tók ákvörðun um birtingu greinarinnar, sagði upp störfum í kjölfarið eftir harða gagnrýni samstarfsmanna sinna.