Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Miklir skógareldar í Portúgal

27.07.2020 - 04:20
epa08567813 Firemen fight a forest fire in Oleiros, Castelo Branco, centre of Portugal, 26 July 2020. The fire started the previous day in Oleiros and is being fought by 873 operational, 268 vehicles and 11 airplane.  EPA-EFE/PAULO CUNHA
 Mynd: EPA-EFE - LUSA
Á áttunda hundrað slökkviliðsmanna berjast við mikla skógarelda um miðbik Portúgals þessa dagana. Eldarnir kviknuðu fyrir rúmri viku og loga enn stjórnlaust þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir slökkviliðs. Nokkur hús hafa þegar orðið eldunum að bráð og stór svæði verið rýmd. Stífir og hlýir vindar torvelda starf þeirra rúmlega 700 slökkviliðsmanna sem staðið hafa vaktina frá því að fyrstu eldarnir kviknuðu í Oleiros-héraði 18. júlí. Þaðan hafa þeir breiðst út til tveggja aðliggjandi héraða.

Haft er eftir yfirstjórnanda slökkvistarfsins, Luis Belo Costa, að meirihluti þeirra sem gert var að rýma heimili sín hafi nú fengið að snúa til sins heima. Eldarnir hafa kostað eitt mannslíf. Ungur slökkviliðsmaður lét lífið á laugardagskvöld í bílslysi sem rekja má til eldanna, samkvæmt frétt Reuters, og sex félagar hans slösuðust.

Þrjú ár frá mannskæðari skógareldum síðari ára

Skógareldar eru algengari í Portúgal en flestum Evrópulöndum öðrum og eldfimast er ástandið inn til landsins, þar sem fólk er fátt og grisjun skógar ekki sem skyldi sökum fjárskorts. Sumarið 2017 brunnu enn meiri eldar á þessum sömu slóðum; þá fórust 66 manns og yfir 250 slösuðust.