Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leitað að uppruna þriggja aðskilinna innanlandssmita

Kamilla Jósefsdóttir
 Mynd: Fréttir
Tuttugu og einn er með staðfest kórónuveirusmit hér á landi og hátt í tvö hundruð í sóttkví. Ekki er útilokað að gripið verði til hertari aðgerða til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Rakningateymi Almannavarna reynir nú að finna uppruna þriggja aðskilinna smita sem öll virðast eiga sama uppruna.

Ekki ennþá tekist að finna uppruna

Af tuttugu og einu smiti sem greinst hefur hér eru 10 innanlandssmit og sjö þeirra tengjast manni sem kom til landsins 15. júlí.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur í sóttvörnum hjá embætti Landlæknis, segir að komið hafi í ljós að maður sem talið var að hafi smitast á leiðinni til landsins hafi sennilega smitast hér á landi. 
 
„Við vorum að fá upplýsingar frá Íslenskri erfðagreiningu um raðgreiningarnar frá honum og hann reynist vera með sama mynstur og aðilar, sem greinast á undan honum, sem höfðu ekki verið að ferðast. Þannig að nú teljum við líklegra að þessi maður, sem hafði farið í gegnum landamæraskimun og var neikvæður þar, hafi smitast eftir komuna til landsins.“

Raðgreiningarmynstur eins í þremur aðskilum sýnum

Ekki er búið að rekja smitið endanlega en raðgreiningarmynstrið er eins, eða mjög líkt, smiti hjá þeim tveimur sem hafa verið nefndir í tengslum við íþróttamót. Ekki er talið líklegt að þeir hafi smitast á mótunum heldur verið smitaðir áður.   
 
 „Enn sem komið er hafa ekki greinst nein smit sem beinlínist er rekjanleg til mótanna.“

Þetta bendi til þess að hér á landi sé innanlandssmit. 

„Nú erum við með þrjú aðskild atvik þar sem raðgreiningarmynstirið er það sama. Þannig að á einhvern hátt sem við höfum ekki ennþá fundið en er verið að finna út þá tengjast þessir aðilar.“

Rakningateymið vinni í því í dag og næstu daga að finna uppruna smitanna. 
 
„Og við þurfum að vera mjög vel vakandi öll fyrir merkjum um að veiran sé að breiðast út þannig að fólk sem er með einkenni þarf að hafa samband við sína heilsugæslu og það er verið að vinna í því að straumlínulaga aðgengið að sýnatöku fyrir þá sem eru með einkenni.“

Þannig að þið eigið von á því að það komi bylgja núna?  Ja það allavega gæti  komið fleiri í tengslum við þessa ákveðnu hópsýkingu en hvort það kemur raunverulega bylgja sem breiðist víða út það vitum við ekki ennþá og reynum allt sem við getum til að hindra.“
 
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV