Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kona sakfelld fyrir kynferðisbrot gegn stjúpsyni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt konu um þrítugt fyrir ítrekuð kynferðsbrot gagnvart stjúpsyni á grundvelli brota á lögum sem leggja bann við kynferðismökum við stjúpbarn undir lögaldri. Brotin voru framin þegar hann var 16-17 ára, en konan, sem bjó með föður piltsins, er sex árum eldri. Hún hafði áður kært hann fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni og var einnig sakfelld fyrir að hafa borið hann röngum sakargiftum. Konan er nú í sambúð með föður piltsins.

Í dómnum eru málsatvik rakin. Pilturinn flutti til föður síns og sambýliskonu hans árið 2015, en hann var þá í 10. bekk. Náin vinátta tókst á milli konunnar og piltsins og hófst kynferðislegt samband þeirra þegar faðir hans var á fótboltaleik erlendis. Í kjölfarið höfðu þau ítrekað kynferðisleg samskipti á heimilinu, upp um það komst í október 2017. Það leiddi til mikilla átaka og uppnáms innan fjölskyldunnar, eins og segir í dómnum, pilturinn glímdi í kjölfarið við mikla andlega vanlíðan og sjálfsvígshugsanir og lagðist inn á geðdeild í kjölfarið.

Kærði piltinn fyrir nauðgun

Konan mætti á lögreglustöð skömmu eftir það og lagði fram kæru um nauðgun á hendur piltinum og hélt því fram að hann hefði ítrekað nauðgað sér og áreitt hana kynferðislega á tímabilinu frá september 2015 til október 2017. Þetta leiddi til þess að lögregla hóf rannsókn málsins og tók meðal annars skýrslu af piltinum með réttarstöðu sakbornings.

Nokkrum mánuðum síðar var rannsókn málsins felld niður og kærði konan þá ákvörðun til ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun lögreglustjóra í byrjun ársins 2018. Í október sama ár lagði pilturinn fram kæru á hendur konunni fyrir kynferðisbrot, auk skaðabótakröfu á hendur hennar.

Þá hóf lögregla rannsókn málsins og tók skýrslu af konunni með réttarstöðu sakbornings fyrir meint brot gegn 148. gr. og 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við rannsókn málsins var á ný tekin skýrsla af piltinum og leiddi rannsóknin til útgáfu ákæru í mars í ár, sem var til meðferðar í málinu sem nú hefur verið dæmt í.

Ræddu knús, kúr og nudd á samfélagsmiðlum

Við meðferð málsins voru meðal annars lögð fram samskipti málsaðila á facebook. Þar hafði konan meðal annars stungið upp á því við piltinn hvort ættu að „gera eitthvað skemmtilegt meðan pabbi er í skólanum muhaha.“  Þá snerust samskipti þeirra í samfélagsmiðlum mikið um knús, kúr og nudd. 

Eftir að uppvíst varð um brot konunnar gegn piltinum reyndi hún að taka eigið líf, var lögð inn á geðdeild og leitaði sér í kjölfarið aðstoðar. Í gögnum málsins kemur fram að hún sé nú í sambúð með föður piltsins.

Dæmd í tveggja ára og níu mánaða fangelsi

Konan var sakfelld fyrir brot á því ákvæði almennra hegningarlaga þar sem segir að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við barn á aldrinum 15, 16 eða 17 ára sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða barn sem er tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg, eða barn sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skuli sæta fangelsi allt að 12 árum. Í ákvæði þessu er þannig lagt fortakslaust bann við samræði eða öðrum kynferðismökum við börn og unglinga undir 18 ára aldri sem gerandi hefur áðurnefnd tengsl við.

Þá var hún sakfelld fyrir rangar sakargiftir með því að hafa komið því til leiðar með rangri kæru að pilturinn yrði sakaður um eða dæmdur fyrir að hafa ítrekað nauðgað og áreitt hana.  Konan var dæmd til tveggja ára og níu mánaða fangelsisvistar og til að greiða piltinum 700.000 krónur í skaðabætur, auk alls sakarkostnaðar.