Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Helmingur allra COVID-19 smita í þremur löndum

27.07.2020 - 06:16
epa08568157 An Indian man wears a protective face mask while walking on a deserted street during  an extended lockdown for ten days due to the outbreak of the COVID-19 disease in Bhopal, India, 26 July 2020 (issued 27 July 2020).  According to the news reports India is listed as the third country worldwide in regards to total COVID-19 cases after the United States and Brazil.  EPA-EFE/SANJEEV GUPTA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um helmingur allra staðfestra COVID-19 tilfella í heiminum greindust í þremur löndum: Bandaríkjunum, Brasilíu og Indlandi. Alls hafa nær 16,3 milljónir greinst með kórónaveiruna sem veldur COVID-19 og bættust rúm 220.000 í þann hóp síðasta sólarhringinn. Var gærdagurinn þrettándi dagurinn í röð, þar sem nýsmit voru yfir 200.000.

Norska ríkisútvarpið, NRK, greinir frá þessu. Af þessum rúmu 16 milljónum eru ríflega 4.2 milljónir í Bandaríkjunum, 2,4 milljónir í Brasilíu og rúmlega 1,4 milljónir á Indlandi. Í samantekt NRK kemur einnig fram að 648.476 þeirra sem greindust með smit dóu úr sjúkdómnum, eða rétt um fjögur prósent.

Dánartíðnin hæst í Belgíu

Dánartíðnin er þó afar misjöfn milli landa. Hún er hvergi hærri en í Belgíu, þar sem dauðsföll eru 85 á hverja 100.000 íbúa. Bretland er næst á þessum dapurlega lista, þar eru dauðsföllin 67 á hverja 100.000 íbúa, þá kemur Spánn með 61, Ítalía með 58 og Svíþjóð er í fimmta sæti með 56 dauðsföll á hverja 100.000 íbúa en Perú í því sjötta með 55. Það eru svo Chile, Frakkland, Bandaríkin og Brasilía sem koma næst, með 47, 46, 45 og 41 dauðsfall af völdum COVID-19 á hverja 100.000 íbúa.