Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hækka aldurstakmark á tjaldsvæðum fyrir helgina

27.07.2020 - 15:33
Mynd með færslu
Frá Mömmur og möffins í Lystigarðinum Mynd: Ein með öllu
20 ára aldurstakmark verður á tjaldsvæðum Akureyrar um verslunarmannahelgina. Ein með öllu verður sniðin að fjölskyldufólki í ár. Stórir viðburðir eins og Sparitónleikarnir verða ekki á dagskrá, þess í stað verða viðburðirnir minni og dreifðari.

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu, sem haldin er á Akureyri um verslunarmannahelgina, verður með töluvert öðru sniði í ár vegna COVID-19. Stórir útitónleikar í miðbænum verða ekki á dagskrá né heldur Sparitónleikar á flötinni við Samkomuhúsið á sunnudagskvöld. Þess í stað verða litlir, fjölskylduvænir viðburðir víðs vegar um bæinn. Kirkjutröppuhlaupið og Mömmur og möffins verða á sínum stað en vegna varúðarráðstafana verða einungis seldar möffins frá fyrirtækjum og viðurkenndum eldhúsum. Tryggja á að fullorðnir gestir verði aldrei fleiri en 500 á einstaka stöðum, í samræmi við reglur yfirvalda.

20 ára aldurstakmark á tjaldsvæðin

Aldurstakmark á tjaldsvæðum bæjarins verður hækkað í 20 ár til að auðvelda fjöldatakmarkanir og forgangsraða í þágu fjölskyldufólks. Með breytingunum vilja skipuleggjendur sýna ábyrgð en gefa fjölskyldufólki tækifæri til að gera sér dagamun á Akureyri. Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir að lögreglan verði með aukinn viðbúnað, bæði til þess að fylgjast með umferð á vegum en líka til þess að fylgjast með því að fjöldatakmörkunum verði framfylgt. 

Allir verða að sýna ábyrgð

„Það er að mínu mati einboðið að halda ekki hefðbundna hátíð en í lagi að bjóða upp á hófstillta viðburði sem fyrst og fremst eru miðaðir að fjölskyldufólki“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri. Það sé hins vegar mikilvægt að heimamenn og gestir sýni mikla ábyrgð og gæti að persónulegum sóttvörnum. Faraldrinum sé því miður hvergi nærri lokið.

Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér.