Fólk í vanda á Hornströndum

27.07.2020 - 02:08
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir í Djúpinu voru kallaðar út á tólfta tímanum í kvöld, þar sem par hafði lent í vandræðum á Hornströndum. Þar er mikil þoka, en talið er að parið sé einhversstaðar í Þorleifsskarði, á milli Fljótavíkur og Hlöðuvíkur. Björgunarskipið Gísli Jóns var sent á vettvang með gönguhópa og kom í Fljótavík um klukkan hálftvö.

Tveir eru í áhöfn Gísla Jóns og göngumenn eru sjö. Ætlunin er að flytja gönguhópana inn eftir Fljótsvatni á slöngubát og koma þeim eins nærri Þorleifsskarði og hægt er til að stytta gönguna, en um sex kílómetrar eru að Þorleifsskarði frá lendingarstaðnum í Fljótavík.

Ekkert samband hefur náðst við fólkið síðan hjálparbeiðnin barst og ekki hefur tekist að staðsetja það nákvæmlega. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að menn telji sig þó vita nokkurn veginn hvar þau eru. Davíð  segir þoku á svæðinu og giska kalt, en veður sæmilegt að öðru leyti. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi