Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ferðabann innleitt á ný í Marokkó

27.07.2020 - 01:32
epa08547754 Women line up to get their temperature measured before they enter the Mouline Rabat mosque, Morocco, 15 July 2020. The mosques were opened for the first time since their closure on 16 March, as a measure to combat the spread of the pandemic.  EPA-EFE/JALAL MORCHIDI
Moskur voru opnaðar almenningi í Marokkó 15. júlí eftir að hafa verið lokaðar síðan snemma í vor.  Mynd: epa
Stjórnvöld í Marokkó hafa aftur gripið til róttækra aðgerða til að hemja útbreiðslu kórónaveirufaraldursins þar í landi. Lykilatriði í þeim aðgerðum er að innleiða á ný ferðabann til og frá helstu stórborgum landsins. Tók það gildi á miðnætti. Enginn fær nú að ferðast til eða frá Casablanca, Marrakech, Tangier, Fez og Meknes.

Brugðust snemma við farsóttinni

Marokkósk yfirvöld gripu snemma til víðtækra aðgerða gegn faraldrinum og lýstu yfir neyðarástandi 20. mars, þegar aðeins 77 tilfelli höfðu greinst í landinu. Landamærum landsins var lokað, fjöldasamkomur bannaðar og ströngum ferðatakmörkunum komið á, innan borga jafnt sem milli þeirra.

Almenningssamgöngur voru nánast aflagðar og veitingastöðum og moskum lokað. Þetta var ekki síst gert vegna þess að ljóst var að innviðir heilbrigðiskerfisins myndu ekki ráða við álagið, ef farsóttin næði sér á strik í landinu.

Faraldurinn aftur í vexti

Þetta hafði tilætluð áhrif, vel gekk að halda veirunni í skefjum og í lok júní var byrjað að aflétta takmörkunum og lokunum. Síðustu vikur hefur smitum þó aftur farið fjölgandi. Eru þau orðin tæplega 20.300 talsins og dauðsföllin 313. Því hefur nú verið gripið til þess að takmarka ferða- og samkomufrelsi landsmanna á ný.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV