Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Barbour-jakkinn og alþýðlega ríkidæmið

Mynd: pexels.com / pexels.com

Barbour-jakkinn og alþýðlega ríkidæmið

27.07.2020 - 09:24

Höfundar

Barbour-vaxjakkarnir eru flestum vel kunnugir enda nær fjölskyldufyrirtækið aftur til ársins 1894. Því er treystandi og allt handgert - eins og í gamla daga. Þegar fólk klæðist Barbour-jakka klæðir það sig í söguna, klæðir sig í hefðina. Hvað er málið með Barbour-jakkann? Jóhannes Ólafsson veltir þeirri spurningu fyrir sér í Tengivagni Rásar 1.

Jóhannes Ólafsson skrifar:

Maður horfir út á iðjagrænt engi og trén við sjóndeildarhringinn sem bærast í morgungolunni. Hann smeygir sér í stígvél og rennir upp vaxjakkanum. Síðan grípur hann hólkinn, blístrar á hundinn og stefnir glaðbeittur í átt til skógar á fasanaveiðar.

Þetta er eins og upphafið að auglýsingu frá fataframleiðandanum Barbour þar sem andrúmsloft bresku sveitanna skiptir öllu í bland við ríka sögu og hefð. Barbour er stöndugt fjölskyldufyrirtæki sem nær fimm kynslóðir aftur í tímann, allt til ársins 1894. Því er treystandi og allt handgert - eins og í gamla daga.

Hvort sem það eru föt á karla, konur, börn eða jafnvel hunda; í fatahengi Barbour er eitthvað sem hentar við allar aðstæður, sérhannaðar flíkur fyrir útivist og krefjandi aðstæður, í skotveiðina, í reiðtúrinn. Þetta er sveitaklæðnaður, þetta er lífstíðareign, þetta er vandað og vandað kostar peninga. Þegar fólk klæðist Barbour-jakka, klæðir það sig í söguna, klæðir sig í hefðina.

Barbour-jakkinn hefur verið að velkjast sérstaklega mikið fyrir mér undanfarið. Þetta er einkennandi flík og öll þessi saga og ímynd vekur hjá mér spurninguna: Hvað er málið með Barbour-jakkann?

Já, Barbour er sveitó. Ætlað í erfiðisvinnu og puð og á að þola ævarandi breska súld. Þetta er þó ekki eingöngu fatnaður fyrir þá stétt sem hefur það að atvinnu að yrkja landið og fóðra dýrin, hann sameinar verkalýðs- og borgarastétt og hið konunglega.

Gamla góða vörumerkið

Barbour er alls ekki eina fyrirtækið sem styðst við söguna til þess að telja fólki trú um gæði vöru og það á heldur ekki bara við um föt. Til eru ótal fyrirtæki sem hafa öðlast virðingarstöðu sem gamla góða vörumerkið, eitthvað sem er flott og verðmætt og alltaf til staðar. Á ensku er talað um heritage, arfinn eða arfleifðina. Það sem hefur staðist tímans tönn og sannað sig fyrir löngu. Þið kannist eflaust við frasa eins og byggt á aldagamalli hefð eða hefur fylgt þjóðinni öldum saman.

Sé þetta sett í íslenskt samhengi mætti nefna fatamerkið 66 gráður norður sem skírskotar í söguna með áberandi hætti, enda eru föt fyrirtækisins upprunalega ætluð sem hagnýtur kostur fyrir brimbarða og vota sjómenn. Nú er fatamerkið með þeim stærstu á íslandi, og ekki bara fyrir sjómenn heldur líka sem hátískuvara borgarastéttarinnar. En arfleifðin er aldrei langt undan, þrekraunir og þol íslenska sjómannsins í gegnum áratugina.

Það sama mætti segja um ýmislegt annað. SS pylsur, en slagorð þeirra er þjóðleg fullyrðing: Íslendingar borða SS pylsur og eflaust finnst mörgum það sjálfsagður réttur allra. Íslenska skyrið er annað dæmi, hver ætlar svo sem að andmæla því að þetta jógúrt sé eitt af því sem haldið hefur lífi í þjóðinni. Fjölmargir reiða sig á margsönnuð vörumerki með rætur í aldagamalli hefð. Það er erfitt að efast um traust þeirra. Þannig er það með Barbour.

Gælir við hið konunglega

Kjarni Barbour er einmitt þetta - hið tímalausa og áreiðanlega. En eins og með aðrar vörur er fólk ekki bara að kaupa áreiðanlega flík í tilfelli Barbour heldur ákveðna frásögn, það er að kaupa sig inn í sögu og traust Barbour, öðlast ef til vill smá hlutdeild í því um leið. Tengir saman sveitina og borgarastéttina og jafnvel gælir við hið konunglega.

Þótt Barbour-jakkar séu eflaust hugsaðir fyrir hvern þann sem þarf góða útivistarflík - er ákveðinn þjóðfélagshópur, afar kunnuglegur, sem klæðist þeim að upplagi. Hvítir efnaðir gagnkynhneigðir karlmenn. Barbour-jakkinn styrkir karlmennskuímyndina. Hann segir: Ég get líka unnið erfiðisvinnu og verið sveitó. Veitt í matinn og riðið út með riffil á bakinu. 

Þetta segir að minnsta kosti greinahöfundur bandaríska fjölmiðilsins Vice, Louis Staples, í grein frá árinu 2019 sem ber heitir Straight Men Quite Simply Can’t Quit the Barbour Jacket - Gagnkynhneigðir karlar geta bara ekki hætt að ganga í Barbour-jökkum. En af hverju? og er það satt?

Staples undrast að ungir karlar af borgarastétt skuli tengja við jakka sem er svo rótgróinn í hefðinni og í sveitamenningu. Markmiðið með því hljóti að vera eitthvað annað og hann kallar það félagslegan felubúning. Að vera í hefðbundnum og smekklegum klæðnaði án þess að láta of mikið á sér bera. Klæðnaði sem segir: Gæði en ekkert prjál.

Vaxjökkunum fylgir karlmannleg kvöð

Þá vísar Staples í skrif Erynn Masi de Casanova, félagsfræðiprófessor við háskólann í Cinncinati í Bandaríkjunum. Hún hefur rannsakað herratísku og segir þróun hennar að jafnaði íhaldssama og hægfara. Einkennismerki herratísku í gegnum aldirnar er fylgispekt, að falla í hópinn. Það tengist gömlum hugmyndum karlmennskunnar um að karlinn eigi ekki að draga að athygli að útlitinu heldur gáfum og hugmyndum sínum. Staples skrifar:

„Hlutverk karla virðist vera að ganga í gegnum raunverulegar breytingar og með þeim kemur ákveðin nostalgísk karlmennska, umvafin aðdáun á burðarstólpunum í fataskáp millistéttarinnar - eins og Barbour.”

Vaxjökkum frá Barbour fylgir líka karlmannleg kvöð, að hugsa vel um þá og hlúa að þeim og það finnst mér ríma við annað nostur sem er vinsælt í dag - súrdeigsbakstur, pottaplönturæktun og núvitund. Barbour er yfirhöfn sem þarfnast fyrirhafnar.

En hvort Barbour-jakkinn sé til þess sýnast efnaður og staðfesta karlmennsku sína án óþarfa athygli, eða einfaldlega merki um smekk fyrir endingargóðri og vandaðri hönnun þá er hann áberandi stöðutákn. Það er ómögulegt að klæðast honum án þess að honum fylgi skilaboð. Skilaboð um þann sem klæðist honum, um þá sögu sem eigandinn vilt tilheyra. Djúpa sögu í breskri súld á fasanaveiðum. Næst þegar þú sérð einhvern í Barbour-jakka hér á Íslandi, hvort sem hann er þurr eða nývaxaður, er þó ósennilegt að sá hinn sami sé á leið á fasanaveiðar.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Tískubransinn færist nær stafrænni framtíð

Samgöngumál

Sjö tonn af varningi frá AliExpress bíða tollmeðferðar

Myndlist

Ein yfirgengilegasta og hárugasta tískusýning heims

Hönnun

Merkjamanían veldur kvíða